144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

lög á kjaradeilur.

[15:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hæstv. fjármálaráðherra eyðir ekki einu orði að þeirri staðreynd að hann er búinn að svipta samningsrétti fjölda stéttarfélaga sem eru ekki í verkfalli. Það er mjög athyglisvert. Hann kippir sér bara ekkert upp við það að nema úr gildi stjórnarskrárvarin réttindi þessa fólks.

Hæstv. ráðherra talar síðan digurbarkalega og krefst samkvæmni af hálfu Samfylkingarinnar. Við í Samfylkingunni hefðum alveg örugglega, hefðum við verið í ríkisstjórn, lagt upp heildstæða kjaramálastefnu í samvinnu við samtök launafólks. Það gerði hæstv. ráðherra ekki. Hann kaus handahófskennt að semja við einn um hluti sem hann gat ekki gefið öðrum. Hæstv. ráðherra er sjálfur búinn að semja við lækna um fordæmisgefandi launahækkanir á þeim grundvelli að sú stétt sé nauðsynleg heilbrigðiskerfinu og hann getur ekki synjað öðrum sem eru jafn mikilvægir heilbrigðiskerfinu sambærilegrar úrlausnar. Það eiga (Forseti hringir.) sömu lög við um aðra. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa einhverja aðra stefnu í kjaramálum en þá að benda út og suður á alla aðra en sjálfan sig.