144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

samkeppni um menntað vinnuafl.

[15:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að Íslendingar eigi í mikilli samkeppni við aðrar þjóðir um menntað vinnuafl, um sérfræðinga, og að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af því á þessum tímapunkti, og raunar löngu fyrr, hvort við Íslendingar séum að verða undir í samkeppni við aðrar þjóðir um menntað vinnuafl. Ég held að það sé sérstaklega hægt að hafa þungar áhyggjur af því í kjölfar lagasetningar helgarinnar. Það eru vægast sagt mjög slæmar horfur á stórum stofnunum í rekstri hins opinbera, heilbrigðisstofnununum. Þar blasa við fjöldauppsagnir og mönnunarvandi sem ég sé ekki að menn séu að gera mikið til að reyna að leysa. Það er vandi sem hefur blasað við um langt skeið.

Mig langar að reyna að ræða þessi mál við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í svolítið víðara samhengi en bara tengt kjarasamningum og þessum viðburðum. Hvað er ríkisstjórnin að gera? Hvað hefur hún í hyggju að gera til að verða ekki undir í samkeppni um þetta menntaða vinnuafl? Við sjáum fram á ömurlega stöðu, en þetta er líka bara slæmur bisness. Við stöndum að því með opinberu fé að mennta þetta fólk og viljum auðvitað að það séu skattgreiðendur á Íslandi í framtíðinni og komi með hæfileika sína og sérþekkingu inn í íslenskt samfélag til að byggja það upp. Við viljum ekki flytja út þetta vinnuafl, en það er að gerast.

Áður en ég segi mína sýn á þessi mál í síðari hluta fyrirspurnar minnar langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann áhyggjur af stöðunni hvað varðar menntað vinnuafl (Forseti hringir.) á Íslandi, að við séum að verða undir í samkeppni við aðra? Skilur hann það fólk sem nú hefur hugsað sér að flytja af landi brott og vinna annars staðar? Hvað vill hann segja við það fólk?