144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

samkeppni um menntað vinnuafl.

[15:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Mér finnst eins og menn leggi upp með þann útgangspunkt í svona umræðu að hér sé bara allt á vonarvöl og allt að fara til verri vegar þegar því er þveröfugt farið. Hér er meiri hagvöxtur en annars staðar og lengsta hagvaxtarskeið yfirstandandi sem Íslendingar hafa lifað á seinni tímum, meiri kaupmáttaraukning, minna atvinnuleysi, meiri vöxtur og viðgangur í undirstöðuatvinnugreinunum. Jú, það er eftirspurn eftir hæfu vinnuafli á Íslandi, en merki um hvað er það þegar Norðmenn sækja svo stíft eftir hjúkrunarfræðingum sem raun ber vitni? Er þá ekki mikill skortur á mönnun í heilbrigðiskerfinu þar? Er það þá ekki veikleikamerki hjá Norðmönnum að þeir skuli ekki geta mannað stöður í Noregi? Er það ekki stóralvarlegt ástand fyrir heilbrigðiskerfið í Noregi? Eða verður það bara þegar það er mönnunarvandi á Íslandi?

Ef menn horfa af einhverri sanngirni á stöðu okkar og bera saman við lönd í nágrannaríkjum eða annars staðar í Evrópu er staðan nokkuð góð og bjart fram undan. Hef ég áhyggjur af því þegar við missum hæft fólk úr landi? Já, ég hef áhyggjur af því. En útlitið er ekki svo slæmt. Það er full ástæða til að fyllast bjartsýni um að við getum með réttum skrefum, einu skrefi í einu, snúið vörn í sókn á þessum ákveðnu sviðum. Ef við viljum velta því fyrir okkur hvernig við getum í framtíðinni aukið við verðmætasköpun þurfum við að taka miklu víðari umræðu. Við þurfum til dæmis að gangast við því að í verk- og tæknimenntun erum við eftirbátar annarra. Við útskrifum ekki úr iðnnámi fólk sem getur mætt þörfum atvinnulífsins eins og atvinnulífið kallar eftir í dag. Við þurfum að stórefla menntakerfið til að fá fjölbreyttara vinnuafl til að mæta ólíkum kröfum framtíðarinnar.

En mér sýnist að þessi umræða sem er hér opnuð (Forseti hringir.) sé eingöngu tengd við fólk úr heilbrigðisgeiranum. Ef menn bera íslenska heilbrigðiskerfið saman við það sem gildir annars staðar stöndum við býsna vel. Það er engin ástæða til að fara inn í þessa umræðu eins og við séum stödd á eftirstríðsárunum eða eitthvað slíkt. Og læknar, vel að merkja, eru að flytja heim.