144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

lausn deilna í heilbrigðiskerfinu.

[15:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Lykilatriðið er einmitt öryggi sjúklinga. (Gripið fram í: Akkúrat.) Ríkisstjórnin fékk að vita fyrir mánuði að ekki væri hægt að tryggja öryggi sjúklinga og að það þyrfti að leysa það hið snarasta með einum eða öðrum hætti. Ríkisstjórnin ákvað í staðinn fyrir að setja aukið fjármagn — nei, það þarf ekki að ganga að öllum kröfum, (Gripið fram í.) það vita allir að það þarf ekki að ganga að öllum kröfum en það þarf að gera það vel í samningum við heilbrigðisstarfsfólk að það vilji vera á Íslandi. Það er ekki verið að gera það núna og við sjáum það. Með einum eða öðrum hætti, segir landlæknir.

Er hæstv. heilbrigðisráðherra að segja mér að ríkið hefði ekki getað forgangsraðað meiri fjármunum í þennan málaflokk og stöðvað þar af leiðandi verkföllin? (Fjmrh.: Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið.) Já, er það? Hérna segir fjármálaráðherra: Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið. Það vita allir að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra marka stefnuna um það hvernig peningum er varið í þessu samfélagi. Það vita allir þó að í bókinni standi að Alþingi fari með budduna. Það vita allir að raunverulega liggja völdin hjá þessum ráðherrum. (Forseti hringir.) Eru með einum eða öðrum hætti raunverulega ekki heimildir til að úthluta meiri fjármunum frá ríkisstjórninni til að tryggja að fjármunir fari í fyrsta flokks heilbrigðiskerfi? Er það það sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að segja?