144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

uppsagnir í heilbrigðiskerfinu.

[15:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Meiri hluti Alþingis setti lög á 17 fagstéttir á laugardaginn. Meiri hlutinn sagði þá brýnt að stöðva verkfallsaðgerðir til að tryggja öryggi sjúklinga. Fullyrðingin um markmið laganna er sjálfsblekking. Félögin sem í hlut eiga sem og stjórnarandstaðan bentu á að lagasetningin gæti valdið óafturkræfum skaða fyrir heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Fréttir berast nú af uppsögnum. Alvarlegur skortur hjúkrunarfræðinga, geislafræðinga, ljósmæðra og lífeindafræðinga er sannarlega ógn við öryggi sjúklinga. Fyrirsjáanlegar afleiðingar laugardagslaganna eru mönnunarvandi, rekstrarvandi og nýliðunarvandi. Það þarf afgerandi yfirlýsingar og alvöruaðgerðir til að koma í veg fyrir að heilbrigðisþjónustan á Íslandi falli varanlega niður um flokk, heilbrigðisþjónustan sem yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna vill að sé í algjörum forgangi.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra hvaða skilaboð hann hafi til þeirra kvenna sem nú eru að segja upp störfum í heilbrigðiskerfinu, til kvenna hverra vinnuframlag er nauðsynlegt svo heilbrigðiskerfið geti tryggt öryggi sjúklinga og boðið áfram upp á frábæra heilbrigðisþjónustu.