144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

uppsagnir í heilbrigðiskerfinu.

[15:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég nefndi áðan í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að stofnanir hefðu ekki nú þegar fengið yfirlit yfir umfang þeirra uppsagna sem fram undan væru. Forstjóri Landspítalans hefur orðað það þannig að hann hafi heyrt meira og minna af þessum uppsögnum í fjölmiðlum og þar fara þær víða. Það er hins vegar alveg klárt að þær verða og munu koma fram. Um það hvar, hvernig og í hve miklu magni þetta birtist hef ég engar upplýsingar og enga stöðu til að leggja gott mat á í dag. Í samtölum mínum við forstjóra heilbrigðisstofnana hef ég hins vegar óskað eftir slíku.

Ef sú dökka mynd sem hér var dregin upp verður að veruleika og það gengur allt eftir sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir lýsti er alveg klárt mál að heilbrigðiskerfið fellur niður um flokk. Ég hef hins vegar meiri trú á stjórnendum heilbrigðisstofnana en svo, þeir hafa áður tekist á við svipaðan veruleika og við höfum unnið okkur í gegnum það. Ég hef enga trú á öðru en að við munum gera það enn eina ferðina.

Ég er ekki með í handraðanum hvað þarf nákvæmlega að koma til á þessu stigi. Fjármálaráðherra lýsti því áðan í andsvari hvað ríkið hefði boðið. Þar var ýmislegt annað í boði en beinar breytingar á launakjörum. Engu að síður æxluðust málin þannig að á síðasta fundi aðila breikkaði bilið á milli samninganefndanna frekar en að það drægist saman þrátt fyrir (Forseti hringir.) að ýmislegt annað héngi á spýtunni en beinar krónutöluhækkanir.