144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[15:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við þökkum hv. þingmanni fyrir að draga breytingartillögu sína til baka. Um leið hörmum við að meiri hlutinn skuli ákveða að falla frá kröfum um skjölun á viðskiptum innan samstæðu sem nefndin sjálf hafði ákveðið að leggja á stórfyrirtækin í landinu milli 1. og 2. umr. Við leggjumst gegn því að nefndin dragi hér í land, enda mikilvægt að þessi atriði séu vel skjöluð til að varna skattundanskotum.

Við fögnum því síðan að hér eru dregnar til baka fyrirætlanir meiri hlutans um að falla frá stuðningi við lífeyrissjóði sem hafa mikla örorkubyrði. Við sögðum í lok síðasta árs að það væru mjög vanhugsaðar fyrirætlanir og sögðum raunar að þær væru svo vanhugsaðar og byggðar á svo miklu reynsluleysi að þær yrðu aldrei að veruleika heldur mundi meiri hlutinn koma hingað í júní og afturkalla sínar eigin ákvarðanir. Það er nú að koma á daginn og við munum styðja það einarðlega og mundum líka fagna því ef ríkisstjórnin reyndi að afturkalla fleiri af vondum ákvörðunum sínum.