144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

úrvinnslugjald.

650. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og skal gera mitt besta til að útskýra þetta betur.

Tilefni þessa frumvarps er að eftir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga breyttum við í stjórn Úrvinnslusjóðs. Það voru áður fimm í stjórn Úrvinnslusjóðs. Í minnisblaði sem Samband íslenskra sveitarfélaga sendi nefndinni útskýra þau fyrir okkur, sem við fylgjum síðan eftir á fundi, að það sem núna eru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, sem var áður LÍÚ og SF, hafi samið sig frá þeim reglum Úrvinnslusjóðs sem þá voru, þ.e. þeir sem eru núna SFS sömdu sig frá þeim reglum sem gilda um Úrvinnslusjóð, framleiðendaábyrgð og fleira sem ég ræddi hér áður.

Eftir að þessi lög voru samþykkt fengum við ábendingar um að það sem stóð í áliti til nefndarinnar hafi verið rangt. Nefndin er öll á bak við þetta, það voru allir sammála um það sem eru í nefndinni að þetta væri í rauninni byggt á fölskum forsendum, breytingarnar á stjórninni, og erum við því að laga það, ekki þó þannig að við tökum fulltrúa númer tvö í stjórninni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga aftur heldur bætum við við, þannig að nú er þetta orðin sjö manna stjórn. Ég fæ kannski að fara yfir það í seinna andsvarinu af hverju það er.