144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms.

Frumvarpið er lagt fram af allsherjar- og menntamálanefnd að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Haft var samráð við framangreinda aðila auk fjármála- og efnahagsráðuneytisins, velferðarráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Samtök tónlistarskóla í Reykjavík. Það er samdóma álit allra þeirra sem nefndin hefur kallað á sinn fund í undirbúning þessa máls að mjög brýnt sé að þetta frumvarp verði að lögum frá Alþingi.

Hér er um að ræða framlengingu á lögum um breytingar á ýmsum lögum vegna þessa margumrædda samkomulags ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem gerð er tillaga um að þetta samkomulag sé lögfest á Alþingi. Hér er um að ræða að enn hefur ekki nást samkomulag um nýjan viðauka vegna þessa máls, en t.d. í viðauka frá 2014 var gildistími upphaflegra samninga framlengdur til 31. desember 2014. Fyrir árið 2015 hefur ríkissjóður greitt mánaðarlega framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að standa straum af þeim kennslukostnaði sem samkomulagið fjallar um. Upphaflega var fjárheimildin 480 milljónir, en er nú 520 milljónir. Það skortir lagaheimild til að draga hlutdeild sveitarfélaga af framlögum þeirra úr jöfnunarsjóði. Sú heimild rann út núna um áramótin og því hefur skort á fjármögnun þeirra verkefna sem sveitarfélögin tóku að sér að fjármagna tímabundið á grundvelli þessa samkomulags. Ákvæðið sem við fjöllum um hér er sambærilegt því sem við áður höfum gert, en sú breyting er þó gerð að 30 millj. kr. framlag ríkisins til varasjóðs húsnæðismála er fellt niður og samsvarandi fjárhæð er þess í stað beint inn í þetta verkefni, þ.e. að stuðla að lausn á bráðavanda tónlistarskóla. Um það snýst þetta mál.

Nefndin telur óhjákvæmilegt að leggja fram þetta frumvarp til þess að tryggja að framkvæmd þeirra verkefna sem hér um ræðir og sveitarfélögin tóku tímabundna ábyrgð á geti orðið að veruleika. Enn hefur ekki náðst niðurstaða í þeim viðræðum sem staðið hafa yfir og standa enn á milli ríkis og sveitarfélaga um framtíðarlausn á þessum málum, þ.e. um endurnýjun á þessu samkomulagi.

Það er ekki fjárheimild í fjárlögum fyrir árið 2015 til að standa straum af þeim kostnaði sem sveitarfélögin hafa tekið að sér, en ég tek fram að ríkið hefur tekið að sér að greiða 520 millj. kr.

Hér er um að ræða tímabundið inngrip löggjafans í mjög alvarlega stöðu sem lýst var fyrir okkur í nefndinni. Það hefur verið mikil óvissa ríkjandi innan skólanna, öryggi í rekstri er takmarkað vegna þess að við erum hér alltaf að velta málinu áfram eitt ár í einu. Það er von nefndarinnar að viðræðum milli aðila verði lokið eins fljótt og auðið er þannig að hægt sé að horfa til lengri tíma en hér er gert.

Við fjölluðum sérstaklega um þessa nýju tillögu varðandi varasjóð húsnæðismála. Það er tillaga Sambands íslenskra sveitarfélaga að höfðu samráði við velferðarráðuneytið að þetta sé gert með þessum hætti, þ.e. 30 millj. kr. verði varið til að leysa þennan bráðavanda í stað þess að fara í varasjóðinn. Sambandið hefur lýst þeirri afstöðu að þetta sé brýnna verkefni en að viðhalda greiðslum til varasjóðsins. Þetta var kannski það atriði sem við ræddum helst í nefndinni áður en við ákváðum að leggja þetta frumvarp hér fram.

Ég vil ítreka þá afstöðu nefndarinnar að við erum hér að leysa bráðavanda tónlistarskólanna að beiðni ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þetta er lagasetning sem við vonumst auðvitað til að þurfa ekki að standa í að nýju á næsta ári. Ég ítreka enn og aftur þá hvatningu nefndarinnar til þeirra aðila sem eru að reyna að ná samningum að reyna nú til þrautar að ná saman þannig að það náist heildarlausn á þessum málum til framtíðar.