144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir framsögu sína fyrir málinu. Þetta er eflaust brýnt mál, en hún nefndi að hér væri verið að leysa bráðavanda tónlistarskólanna. Ég vildi byrja á því að inna þingmanninn eftir því hvort þetta fæli í sér lausn á þeim bráðavanda sem þar er við að stríða eða hvort enn séu eftir einstaka skólar í vanda sem ekki verði við ráðið eða blasi rekstrarstöðvun við þrátt fyrir þessar aðgerðir.

Ég vil spyrja jafnframt að því, nú þegar nefndin lýsir þeirri frómu ósk að þessu þurfi ekki að redda aftur með bráðainngripi eins og þessu að ári liðnu eða svo: Hefur eitthvað efnislega fram komið af hálfu sveitarfélaganna eða ráðherrans sem tryggir það? Ef ekki, er þá ekki skynsamlegra að búa um þetta til lengri tíma úr því þingið þarf að vera að hlutast til um þetta á annað borð? Það að gera þetta svona tímabundið sýnist mér að hafi leitt til þess að síðan um síðustu áramót hafi engar fjárheimildir verið og ég held að það geti allir sett sig í þau spor sem tónlistarskólarnir eru í að þurfa að standa í rekstri og það eru engar fjárheimildir fyrir næsta ár, hvað þá nú þegar komið er inn á þetta ár og engar fjárheimildir verið frá áramótum, það hlýtur að vera býsna erfitt að skipuleggja nokkurn rekstur út frá því. Það er óviðunandi umbúnaður að mínu viti um fjárreiður ríkisins og jöfnunarsjóðsins að koma með þetta svona eftir á og til skamms tíma í senn.