144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra frá formanni nefndarinnar að þar hafi verið sýnd drög að tillögum til lausnar á þessum vanda því það er rétt sem hún lýsir að það er auðvitað stórkostlegur vandi í málefnum tónlistarskólanna í landinu. Hér er í raun bara verið að leysa úr allra bráðasta vandanum hjá sumum skólanna og út af fyrir sig ástæða til að undirstrika það að nefndin og formaður nefndarinnar hafi ekki gert annað en að reyna að koma að einhverjum lausnum í þessu efni og valda ekki því ástandi sem er. En það er full ástæða til þess að gagnrýna eigi að síður menntamálayfirvöld fyrir þá stöðu sem uppi er. Ég efast um að rétt sé að leysa tímabundið úr málunum með tímabundnum heimildum, því það þýðir auðvitað að við erum þá æ ofan í æ að flytja mál af þessu tagi þrátt fyrir frómar óskir okkar um að menntamálayfirvöld nái að koma einhverju skikki á stöðu tónlistarskólanna í landinu. Þeir eiga nú margir hverjir því miður í gríðarlegum fjárhagserfiðleikum og miklar deilur standa um hugmyndir menntamálayfirvalda um endurskipulagningu skólanna og það er óskandi að reynt sé að minnsta kosti að búa þannig um úrlausnir að þær séu til lengri tíma en eins árs í senn.