144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gefa mér neitt um það hver hin raunverulegu áform hæstv. menntamálaráðherra eru. Hann hefur verið mjög orðfár og orðvar um það. Hann hefur ekki viljað ræða það til dæmis við sveitarfélögin. Hann hefur ekki viljað ræða það við Alþingi og það þykir mér verst. Ég hef lesið umsagnir manna sem taka ber mark á, eins og Víkings Heiðars Ólafssonar píanóleikara, sem dregur sínar ályktanir af orðum ráðherrans og telur að hugsanlegt sé að hann stefni ekki endilega í svo slæmar áttir. Ég veit ekkert um það. Ég vil fá að vita um hvert ráðherrann er að fara. Það er það sem ég átti nú við með umburðarlyndi hv. þingmanns vegna þess að mér finnst sjálfum að það sé eiginlega að teygja umburðarlyndið fulllangt, jafnvel umfram það sem boðlegt er, að ætla sér að afgreiða þetta mál án þess að vita hvert hæstv. menntamálaráðherra er að fara með það.

Nú erum við stödd á síðustu metrum þingsins, gæti verið. Hv. þingmaður ætlar að bíða eftir því að fá svar við munnlegri fyrirspurn. Hvað verður um munnlegar fyrirspurnir þegar menn eru að ljúka samningum um þing? Þær ýmist gufa upp eða þeim er breytt í skriflegar fyrirspurnir, þannig að ég óttast að við eigum ekki tök á því að ræða þetta við hæstv. menntamálaráðherra. Ég mundi gefa hv. þingmanni það ráð að minnsta kosti að efna til sérstakrar umræðu um þetta mál vegna þess að þetta er ekkert smámál. Þetta er gríðarlega mikilvægt, ekki bara fyrir tónlistarlíf í landinu heldur fyrir töluvert stóran hóp sem svo vill til að hefur fest rætur utan höfuðborgarsvæðisins. Við verðum að hugsa um það líka. Sumt af því sem hæstv. ráðherra hefur verið að segja væri hægt að túlka sem mjög andstætt hagsmunum landsbyggðarinnar. Ég ætla ekki að gera það á þessu stigi. Látum ráðherrann njóta vafans, en (Forseti hringir.) það verður að sýna á spilin gagnvart þinginu áður en þetta mál er (Forseti hringir.) afgreitt, finnst mér.