144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þetta mál sem við í allsherjar- og menntamálanefnd flytjum og erum kannski ekkert sérlega glöð með að þurfa að láta stilla okkur upp með þessum hætti eins og hér hefur komið fram. Eftir miklar umræður og yfirvegun þá teljum við það skárra en ekki að leggja frumvarpið fram. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að auðvitað er þetta eitthvað sem maður vonast til þess að þurfa ekki að gera aftur og maður eiginlega krefst þess að deilan verði leyst. Hún fór ágætlega yfir söguna og hvernig þetta er allt saman til komið. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði hér um skítareddingu, ég held okkur líði pínulítið svoleiðis, líka af því að málið kemur afskaplega seint inn til nefndarinnar og takmarkaður tími til að bregðast við og ræða það ítarlega. En það verður samt niðurstaðan að gera þetta til þess að skólarnir geti starfað þetta árið.

Það eru nokkur atriði í frumvarpinu. Í 4. gr. koma fram verkefni sem sveitarfélögunum var falið í þeim samningi sem gerður var og það komu fram sjónarmið meðal annars frá félagsmálaráðuneytinu um sumardvalarheimilið í Reykjadal að kannski væri æskilegt að meðhöndla það eða sérgreina það í jöfnunarsjóðnum eins og skólabúðirnar á Reykjum. Ég held að það væri vel til fundið að það væri ekki svona stakt verkefni sem þyrfti að fara í gegnum þennan samning, heldur mundi gegna svipuðu hlutverki. Svo kemur líka fram í c-lið 4. gr. verkefni sem heitir Vistheimilið Bjarg. Þar eru áætlaðar 63,3 milljónir. Það liggur fyrir að sveitarfélögin eru kannski ekkert sérstaklega spennt að fá verkefni með þessum fjármunum, telja sig þurfa helmingi meira, í kringum 120 milljónir. Bara í ljósi þessara atriða er mikilvægt að þessi samningur verði endurskoðaður.

Síðan má nefna eins og kom fram í framsögu formanns nefndarinnar þær 30 milljónir sem eiga vera til lausnar á bráðavanda tónskóla og snúa að jöfnunarsjóðnum. Þær voru framlag ríkisins til varasjóðs húsnæðismála en það er fellt niður og í staðinn sett inn sem framlag til þessa málaflokks af því að Samband íslenskra sveitarfélaga taldi bráðavandann meiri þar, mikilvægara væri að framlagið færi þangað en í varasjóðinn. En það vakti athygli mína þegar félagsmálaráðuneytið kom til okkar að það er í rauninni búið að gera ráð fyrir þessum fjármunum í hin nýju úrræði í húsnæðismálum. Auðvitað verða sömu peningarnir ekki notaðir tvisvar þannig að þá þarf einhvern veginn að fleyta því áfram. Hluti af þessu kemur inn í fjáraukalög og við þurfum að takast á við það í fjárlaganefnd í haust, en félagsmálaráðherra þarf að finna út úr því ef búið er að nýta þessa fjármuni í húsnæðismálin.

Ég er kannski ögn viðkvæmari fyrir áætlunum hæstv. ráðherrans og fyrirætlunum hans. Í morgun held ég að hafi verið birtist viðtal við dreng og fjölskyldu hans frá Ísafirði sem hefur verið í píanónámi og ef hugmyndir ráðherrans verða að veruleika þá þarf viðkomandi auðvitað að flytja eins og svo margir aðrir nemendur á landsbyggðinni. Það eru kringum 190 nemendur sem stunda tónlistarnám á framhaldsstigi á landsbyggðinni og það hefur komið fram að þessar hugmyndir eru uppi og ef þær verða að veruleika má velta því fyrir sér að þá eiga sveitarfélögin í raun að sjá um framhaldsnám í tónlist utan Reykjavíkur eða stórhöfuðborgarsvæðisins getum við sagt. Það harmónerar varla við byggðastefnu né heldur jafnrétti til nám, ég lít þannig á það.

Hæstv. ráðherra hefur látið hafa eftir sér að hann telji að þessi áform sem hafa farið í loftið, sú hugsun að sameina tónlistarskóla og leggja til ríkisframlag, breyti ekki neinu því það verði aðgangur að námi og hugsanlega verði hægt að færa þetta eitthvað eða semja við tiltekna kennara í tilteknum skólum. Ég hefði viljað sjá það gerast eins og fyrrverandi menntamálaráðherra rakti áðan ágætlega með einhverjum samningi þar sem það væri tryggt og þyrfti ekki að vera háð samningi við þann skóla sem yrði ríkisstyrktur á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur ekki endilega komið fram að hann yrði ríkisrekinn heldur allt eins ríkisstyrktur og það er kannski meira í anda hæstv. menntamálaráðherra.

Það er líka mjög bagalegt að túlkun Reykjavíkurborgar varðandi samninginn komi svona niður á landsbyggðinni. Mér finnst mjög mikilvægt að vilji hennar verði dreginn fram og það hafa mjög margir tónskólastjórar, allflestir held ég, sent bæði okkur þingmönnum og öðrum, ráðuneytinu og ráðherra bréf vegna þessa máls. Ráðherra hefur sagt að af því samkomulagið sé útrunnið þá eigi í raun ekki að endurnýja það. Þess vegna er þetta mál komið inn á vettvang nefndarinnar sem flytur frumvarpið. Þannig að ráðherrann hefur augljóslega önnur áform og ég held að það sé ekkert óvarlegt að túlka það með þeim hætti sem hér hefur komið fram, sérstaklega í ljósi þess hvernig framhaldsskólaumræðan fór öll sömul. Ég hef því illan bifur á þessum hugmyndum, ég segi það hér. Málið varðandi framhaldsskólana er komið fyrir vind í augnablikinu en ég er ekki örugg um að það sé leyst og þess vegna hef ég miklar áhyggjur af því að niðurstaðan verði sú að það verði eingöngu í Reykjavík sem nám verði greitt niður með þessum hætti.

Það kom fram hjá nefndinni varðandi það af hverju tónlistarskólarnir ættu ekki aðgang að þeirri nefnd sem skipuð var til þess að fara yfir þessi mál að um væri að ræða breytingu á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og mér fannst það mjög sérkennileg röksemdarfærsla. Slíkur aðgangur hlýtur að skipta máli þegar verið er að fjalla um svo stórt mál eins og þetta og snýr í rauninni að því að á einhverjum tímapunkti hafi fulltrúar tónlistarskólanna aðkomu að nefndinni þó svo að það sé ekki að allri vinnu hennar. Það hlýtur þá að mega afmarka vinnuna með einhverjum hætti, eftir tilteknum verkefnum, en eins og þetta hefur verið þá hangir það allt saman. Og þau verkefni sem eru talin upp í frumvarpinu eru hluti af þessu samkomulagi vegna tónlistarskólanna. Þannig að mér finnst skrýtið að ætla að skýla sér á bak við það að vegna þess að um sé að ræða verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga þá sé ekki hægt að taka inn fulltrúa tónlistarskólanna. Ég held að það sé ekki skynsamleg nálgun.

En ég þarf svo sem ekki að ræða þessi mál ítarlega, ég eins og fleiri samþykki og legg þetta frumvarp fram sem fulltrúi í allsherjar- og menntamálanefnd eingöngu vegna þess að fulltrúar þeirra sem í hlut eiga, þ.e. tónlistarskólarnir, telja að það sé betra en ekki og er samið til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Auðvitað eru ekki allir tónskólarnir jafn illa staddir hér á höfuðborgarsvæðinu.

Í lokin vil ég nefna að eitt af því sem kom á óvart í nefndarumfjölluninni er að það eigi að gera úttekt aftur á rekstrarhæfi skólanna. Það er ekki langt síðan var gerð úttekt á rekstrarhæfi skólanna þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna þarf að gera það aftur. Það má vel vera að það skili einhverju en það kostar líka töluvert mikla peninga sem væri kannski betur varið beint í reksturinn. En þetta er auðvitað af hálfu sveitarfélagsins.

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér er komið fram að maður tekur þátt í þessari afgreiðslu með semingi. Maður hefði svo gjarnan viljað að ráðherrann hefði verið búinn að vinna þetta mál frekar en mörg önnur mál sem hann hefur verið að vinna í allt of mikið baksviðs að mínu mati, bæði varðandi framhaldsskólana, Menntamálastofnun og fleiri mál, byrjað á vitlausum enda, og léti ekki nefndina bjarga sér fyrir horn eins og hér er verið að gera. En við gerum það þrátt fyrir það, með semingi, og vonum að innan skamms tíma verði komin niðurstaða til framtíðar í þessum málum og þá ítreka ég að tekið verði tillit til landsbyggðarinnar en ekki eingöngu höfuðborgarsvæðisins.