144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil byrja á því að inna hana eftir því hvort það sé rétt skilið að sú ráðstöfun sem hér er verið að grípa til sé tímabundin og ef ekki kemur varanleg lausn eða einhvers konar heildarlausn í málefnum tónlistarskólanna, sem eru núna í miklu óefni hjá hæstv. menntamálaráðherra, hvort þingið þurfi þá aftur að grípa inn í að ári eða tveimur að óbreyttu. Ég segi það vegna þess að ég hef ekki mikla trú á því að menntamálaráðherra sé að leysa úr þeirri erfiðu stöðu sem margir tónlistarskólanna eru í því að þær hugmyndir sem hann hefur teflt fram virðast vera vægast sagt mjög umdeildar.

Ég tek undir með þingmanninum um þau sjónarmið sem lúta að stöðu framhaldsnáms á landsbyggðinni og spyr hana: Er þetta í raun og veru ekki eina dæmið sem við höfum um viðleitni af hálfu menntamálayfirvalda til þess að draga framhaldsnám frá landsbyggðinni og hingað á höfuðborgarsvæðið, þ.e. frá staðnum þar sem fólkið býr? Hefur ekki viðleitnin á undanförnum árum verið þvert á móti sú að reyna að byggja upp framhaldsmenntun og valkosti nær fólki út um landið?

Við höfum slæma reynslu af breytingum hæstv. menntamálaráðherra í skólamálum. Telur ráðherrann sig hafa allar heimildir til þess að fara fram með þær hugmyndir sem hann hefur kynnt og gera þær að veruleika eða þarf hann að sækja lagaheimildir fyrir þessum breytingum hingað til Alþingis, að hans mati eða nefndarinnar?