144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þakka hv. þingmanni andsvarið. Við lítum svo á í nefndinni að þetta sé tímabundið. Það var mjög skýrt tekið fram. Eins og ég segi var einhugur í nefndinni hvað það varðaði. Það vildi raunverulega enginn gera þetta, hvorki meirihlutafulltrúar né minnihlutafulltrúar, svo að það sé sagt, bæði vegna þess hversu málið var seint fram komið og fólk hafði tilfinningu fyrir því að það ætti að vera búið að leysa þetta.

Hér er líka um svolítið mix að ræða, fjárhagslegt mix. Það er verið að taka 30 milljónir úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, þ.e. varasjóði húsnæðismála, til þess að redda málunum í staðinn fyrir að bæta upphæðinni við sem viðbótarframlagi. Annað eins er nú sett í hina ýmsu þætti sem við þekkjum af umræðum undanfarnar vikur. Hingað inn komu mál upp á stórar fjárhæðir til hinna ýmsu málefna og ég skil ekki að það sé ekki hægt að taka 30 milljónir og setja þær á fjáraukann rétt eins og milljarða í staðinn fyrir að fara í þetta mix. Það var það sem við höfðum áhyggjur af. Það kom hins vegar fram að félagsmálaráðuneytið gerði ekki beinlínis athugasemdir við þetta. Fulltrúi þess ítrekaði þó að hann hefði áhyggjur af því að varasjóður húsnæðismála væri ónýtur því að gert er ráð fyrir þessu til tveggja ára. Hann sagði það beinlínis á fundinum.

Ég tel að ráðherra þurfi heimildir. Ég get ekki svarað fyrir alla nefndina, en mér finnst einsýnt að ráðherra eigi að sækja sér heimildir. Við höfum auðvitað rætt það ítrekað, sérstaklega varðandi framhaldsskólana.

Af því hv. þingmaður nefndi hér önnur úrræði þá er í ljósi þeirra breytinga sem urðu í sambandi við 25 ára og eldri augljóslega verið að færa skólana sums staðar á landsbyggðinni fjær fólki. Ég lít þannig á að það sé (Forseti hringir.) eitt af því sem ráðherrann hefur gert. (Forseti hringir.) Þetta er ekki eina dæmið að mínu viti.