144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því miður er allt þetta mál að mörgu leyti hið sérkennilegasta. Það er flutt af þingmönnum sem vilja í raun og veru ekki flytja það vegna þess að staða tónlistarskólanna er með öllu óþolandi. Menntamálayfirvöld hafa ekki skorið á þann hnút. Það er ástæða til þess að átelja þá.

Ég spyr ekki síst hv. þingmann sem fulltrúa í fjárlaganefnd um það að hafa ekki haft allt frá áramótum heimildir til þess að nýta þessi framlög í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, hvort það sé ekki algerlega óviðunandi að þeir aðilar sem hér eiga í hlut hafi mátt búa við það mánuðum saman að lagaheimildir væru ekki fyrir hendi á yfirstandandi ári, fyrir utan að hér er verið að ráðstafa fjármunum allt of seint til aðila í rekstri til þess að hægt sé að byggja á þeim einhverjar áætlanir.

Ég vildi spyrja þingmanninn hvort það hefðu komið fram einhverjar upplýsingar um umfang vandans sem tónlistarskólarnir standa frammi fyrir og hvort einhverjir þeirra væru í þannig erfiðleikum að hætta steðjaði að rekstri þeirra. Sömuleiðis, þó að nefndin skilji það þannig að ráðherrann þurfi að sækja sér lagaheimildir fyrir þeim breytingum á tónlistarskólunum sem hann hyggst fara í — er það líka skilningur ráðherrans? Hann hefur ítrekað talið sig geta farið fram með ákvarðanir sem lögfræðingar teljast ekki standast, t.d. hvað varðar Iðnskólann í Hafnarfirði, án þess að bera þær fyrst undir Alþingi. Er ástæða til að hafa áhyggjur af því að hann geri það í þessu máli?