144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er kom einmitt fram með þessar heimildir að ráðherra þyrfti að sækja sér þær. Ég tala bara fyrir mig og ég tel að þess þurfi en ráðherrann hefur sýnt að hann hefur ekki sama skilning og telur sig geta breytt menntakerfinu í gegnum fjárlög, ekki með samræðu í þinginu. Þess vegna, eins og ég kom að í ræðu minni, hef ég áhyggjur af því að hann líti svo á að hann geti gert þetta án þess að tala við mann eða annan um þær hugmyndir sem hafa verið hér á reiki og varða einn tónlistarskóla sem er rekinn af ríkisframlagi á höfuðborgarsvæðinu. Af því hef ég miklar áhyggjur.

Það kom fram hjá nefndinni að skólarnir eru mismunandi staddir og einhverjir þeirra eru mjög illa staddir. Það hefur svo sem komið fram líka í fjölmiðlum að sumir telji sig ekki lifa af ef ekkert gerist og séu alveg á bjargbrúninni. Það er kannski það sem úttektin á að sýna sem fyrirhuguð er af hálfu Reykjavíkurborgar, þrátt fyrir að það sé til nýleg úttekt eins og ég nefndi.

Varðandi það að seint sé borgað eða ekki hafi verið heimildir þá hafa þessar heimildir vissulega ekki beinlínis verið fyrir hendi en Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur greitt þessum skólum mánaðarlega fram til þessa í þeirri von að þetta muni ganga eftir, að frumvarpið verði samþykkt. Það stendur ekki beinlínis á því, sem betur fer, þá væri málið enn alvarlegra. En auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um það að ráðherra líti svo á að (Forseti hringir.) jöfnuður til náms sé í efsta sæti þegar kemur að framhaldsnámi í (Forseti hringir.) tónlistarskólum.