144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt. Ég varð var við það að fljótlega fór að bera á ágreiningi um túlkun ákveðinna þátta tengt þessu samkomulagi, sem var auðvitað miður, hvort þetta hefði falið í sér vilyrði frá ríkinu um tiltekinn fjölda stöðugilda eða hvernig ætti að meta aukna eftirspurn eftir náminu og annað í þeim dúr. Ég er ekki nákvæmlega inni í því tæknilega en það breytir ekki hinu að það komu umtalsverðir nýir fjármunir inn í málaflokkinn með þessu samkomulagi. Úr því að hægt var að tosa inn í þetta 250 millj. kr. í nýjum fjármunum 2011 er skrýtið að það skuli ekki vera nokkur leið að ná þessu saman núna 2015, ef menn vilja á annað borð standa myndarlega að þessu og að ríkið standi við sína plikt berandi ábyrgð á framhaldsskólastiginu og framhaldsnámi í landinu. Það er það sem þetta snýst um og engin deila, held ég, um að grunnnámið sé á vegum sveitarfélaganna sem hluti af grunnskólanum eða grunnnámi en þegar komið er upp á miðstig og framhaldsnám í tónlistarskólum komi ríkið að því.

Ég hef ekki fengið neinar skýringar á því af hverju þetta er strand núna á árinu 2015. Auðvitað skiptir miklu máli að ná þessu saman við Reykjavíkurborg, ég geri ekkert lítið úr því, hún er náttúrlega mjög stór í þessu, trúlega það sveitarfélag þar sem langalgengast er að nemendur komið annars staðar frá, þar næst gæti komið Akureyri þar sem þetta hefur oft verið talsvert núningsmál, en þó held ég að það hafi yfirleitt verið leyst stórvandræðalítið miðað við það sem ég þekki til mála þar. Kannski hefur Akureyri einfaldlega litið meira á sig sem miðstöð þessa náms á Norðurlandi og ekki gert sér miklar rellur út af því þótt þar kæmu inn nemendur úr öðrum sveitarfélögum.