144. löggjafarþing — 132. fundur,  16. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[17:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er einn flutningsmanna þessarar tillögu sem flutt er í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Það voru þó ekki einungis konur sem fengu kosningarétt 1915, heldur einnig karlmenn, vinnumenn og frjálsir karlmenn, þannig að þetta var stórt skref fyrir marga í átt til lýðræðis.

Mig langar af þessu tilefni að rifja upp að sú saga sem við ræðum hér, þá sérstaklega baráttan fyrir kvenréttindum, hefur verið löng og ströng og þar hefur oft þurft róttækar aðgerðir til að vinna sigra. Mig langar að rifja upp það sem John Stuart Mill sagði í bók sinni, Kúgun kvenna, sem kom út á 19. öldinni og kom út á íslensku um aldamótin 1900. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Í stað þess fyrirkomulags“ og vísar þá til misréttis karla og kvenna „verður að koma annað sem miðar að því að koma á fullkomnum jöfnuði milli kynjanna þannig að hvorugt hafi nokkur forréttindi eða völd, og hvorugt verði með lögum útilokað frá nokkru sem hitt hefur.“

Það sem Mill benti líka á var að skoðanir okkar á réttindum karla og kvenna væri einmitt oft erfitt að hrekja með rökum því að þær stjórnuðust ekki síst af tilfinningum.

Mill segir, með leyfi forseta:

„Nú eru einmitt tilfinningar vorar með tilliti til hinnar misjöfnu stöðu karla og kvenna í mannfélaginu af ýmsum ástæðum meir lifandi og rótgrónari en allar aðrar tilfinningar sem geyma og vernda venjur fortíðarinnar. Það er því eigi að furða þótt þær séu öflugastar af öllum og hafi varist best gegn andlegum byltingum sem orðið hafa í mannfélaginu á seinni tímum.“

Það er umhugsunarefni að við séum hér 2015 enn að berjast fyrir jöfnum rétti karla og kvenna, því að þó hann sé með lögum orðinn samur vitum við öll sem hér sitjum að það skiptir máli, líka á Íslandi þótt við stöndum framarlega, hvort maður er karl eða kona. Það hefur oft þurft róttækar aðgerðir til þess að breyta því. Þar nægir auðvitað að rifja upp fyrirlestur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem birtur er í sömu bók sem gefin er út af Hinu íslenzka bókmenntafjelagi, sem bar þann ágæta titil, Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna, þar sem hún setti á borðið ýmis þau baráttumál sem konur þurftu að berjast fyrir; til að mynda aðgengi kvenna að menntun, og þótti róttæk á þeim tíma, alveg eins og Kvennalistinn þótti gríðarlega róttækur á sínum tíma. Hann var jafnvel hæddur og spottaður, að þar skyldu konur taka sig saman um að bjóða sig saman í sérstökum kvennalista, en þó var það ekki einmitt fyrr en þá að aðrir stjórnmálaflokka tóku við sér og fóru að vinna að jöfnum rétti kynjanna á Alþingi.

Og brjóstabyltingin sem núna stendur yfir, margir furða sig á að ungar konur fletti sig klæðum til að afklámvæða brjóst sín og ég heyri marga hneykslast á. Ég segi: Er þetta ekki einmitt til marks um að við eigum að hlusta á konurnar því að þær eru að berjast fyrir réttindum sínum? Ég styð þörf þeirra til að tjá sig með þeim hætti sem þeim hentar um það sem þeim hentar þegar þeim hentar.

Tillagan sem hér um ræðir og fjallar um Jafnréttissjóð Íslands tekur á ýmsum verkefnum, m.a. að vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti, varpa ljósi á samfélagslegan og umhverfislegan efnahagslegan ávinning af auknu jafnrétti og styðja jafnrétti á alþjóðavísu, sem er mikilvægt. Verkefnunum er líka ætlað að vinna gegn ofbeldi, kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, sem er sem betur fer að verða aukin umræða um í samfélaginu einmitt um þessar mundir. Við sjáum að þar getum við gert svo miklu, miklu betur.

Einnig er hvatt til þróunarverkefna í skólakerfinu, til að mynda með aukinni kennslu í kynjafræðum, en við sjáum núna að það sem nemendur ræða sem hafa einmitt fengið að taka þátt í umræðu um hvað felst í því að vera karl og kona, skiptir þau máli til að þroskast og verða góðir borgarar í lýðræðissamfélaginu.

Það er líka rætt um að hvetja ungt fólk almennt til aukinnar þátttöku í samfélagsverkefnum og það ætti auðvitað að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að hvetja til aukinnar kosningaþátttöku og virkni. Við verðum að taka mark á þeim vísbendingum sem við höfum fengið í síðustu kosningum þar sem kosningaþátttaka ungs fólks virðist vera að dvína. Síðan er rætt um rannsóknarverkefni sem eru til þess fallin að varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð. Allt eru þetta góð og göfug markmið, en við verðum örugglega líka spurð: Er þetta það sem skiptir mestu máli?

Ég vil segja að þetta er auðvitað í tilefni þess að við fögnum 100 ára afmæli kosningarréttarins. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að þó að margt hafi unnist og Ísland hafi staðið sig vel í alþjóðlegum samanburði eru líka mörg verkefni óunnin til að jafna rétt og stöðu kynjanna til að ná hinu fullkomna jafnrétti sem Mill talaði um á 19. öldinni.

Hlutverk okkar á líka að vera, ekki bara í þessu máli heldur alltaf, að tryggja að allir geti tekið þátt í samfélaginu. Þá eru auðvitað fjöldamörg önnur verkefni sem okkur ber að líta til, því að það á að vera hlutverk okkar að tryggja þann rétt. Það er það sem við getum kallað almannahagsmuni sem eiga að vera markmið okkar þingmanna, þ.e. að berjast fyrir því að allir geti tekið þátt í samfélaginu. Það á auðvitað ekki bara við um konur og karla, það á við um marga þá hópa sem láta vita af sér um þessar mundir, ég nefni sem dæmi þá heyrnarlausu sem hér standa fyrir utan og kalla eftir rétti sínum til að taka þátt í samfélaginu, en ég gæti nefnt óteljandi fleiri hópa.

Aðalmálið er að við séum meðvituð sem hér erum að það er hlutverk okkar að tryggja þátttöku allra í samfélaginu, karla og kvenna, en líka annarra hópa. Þessi tillaga er bara einn þáttur í því verkefni. Því lýkur líklega aldrei, en um það verkefni eigum við að vera meðvituð í öllum okkar störfum.