144. löggjafarþing — 132. fundur,  16. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[17:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í tilefni 19. júní og hátíðarhalda sem verða hér í þinginu hafa verið hengdar upp frammi í matsal tilvitnanir í ræður sem fluttar voru í aðdraganda þess að konur fengu kosningarrétt hér á landi, sem farið hefur verið yfir hér. Mig langar að vitna í fjögur af þessum spjöldum, með leyfi forseta:

„Það er langt síðan ég hugsaði um þetta merkilega efni með þeim litla vitsmunakrafti sem mér er gefinn og ég er svo sannfærður sem maður getur verið að öll þessi svonefnda kvenréttindahreyfing sem nú er að ná yfirtökunum er óheillaspor, gönuspor mannkynsins, er hlýtur að leiða til vaxandi lífskvalar sem þó mun varla verða á bætandi.“

Á öðru spjaldi segir, með leyfi forseta:

„Karlmennirnir hafa tekið að sér störfin út á við en kvenþjóðin inn á við. Pólitísku störfin eru ekkert leikfang. Þau eru hálfgert skítverk og við þess konar störfum eigum við að hlífa kvenþjóðinni.“

Þá segir líka, með leyfi forseta:

„Það er ekki tilhlökkunarefni t.d. fyrir gifta menn að hafa konu sína á Alþingi, dóttur í bæjarstjórn og vinnukonuna kannski líka á öðrum hvorum staðnum.“

Á því fjórða sem mig langar að nefna hér er, segir, með leyfi forseta:

„Þótt ég sé kvenhollur þætti mér ekkert gaman að því að mega búast við einum 20 konum á þing allt í einu.“

Við erum nú sem betur fer búin að ná því markmiði að hér eru alla vega komnar eitthvað yfir 20 konur, en það breytir því ekki að við eigum enn töluvert verk að vinna. Þó að við mælumst vel, Íslendingar, þegar kemur að jafnréttismálunum á alþjóðavísu, er það ekki endilega merki um að við séum búin að ná alla leið heldur eingöngu merki um að við höfum það langt, en þó er töluvert verk óunnið.

Mig langar aðeins að segja stuttlega um þessa þingsályktunartillögu hér að við í Samfylkingunni hefðum gjarnan viljað hafa hana skýrari, þ.e. fókuseraðri á ákveðin mál og beina fjármununum í stærra verkefni, en engu að síður er það nú þannig að þegar margir koma að málum verða verkefnin fleiri og kannski erfiðara að finna fókus. En það er þó fagnaðarefni að við höfum náð saman um þetta og ég hef mikla trú á því að þessir fjármunir muni nýtast vel.

Það er þó ákveðinn skuggi yfir þessum hátíðarhöldum í ljósi þess að síðastliðinn laugardag voru sett lög á verkföll kvennastétta, en það breytir því ekki að nú fögnum við því að við höfum náð saman um að setja hálfan milljarð til þessara verkefna á næstu fimm árum. Þá finnst mér líka mikilvægt að árétta það hér að við lítum jafnframt svo á að þessir fjármunir komi ekki í staðinn fyrir aðra fjármuni, heldur sé þetta viðbót við þau verkefni og muni ekki hafa áhrif til lækkunar annarra liða sem tengjast þeim. Ég vil þá ekki síst nefna þróunarsamvinnuna vegna þess að boðaður hefur verið niðurskurður á þróunarsamvinnunni af hálfu þessarar ríkisstjórnar á næstu árum. Við erum andsnúin því, við jafnaðarmenn, við höfum nefnilega verið að leggja áherslu á konur og börn í þróunarsamvinnunni og beint fjármunum þangað. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að hér er kveðið á um að töluvert af þessum fjármunum skuli fara til verkefna sem tengjast auknu kynjajafnrétti á alþjóðavísu. Þá tel ég mikilvægt að við sammælumst líka um að lækka ekki framlögin til þróunarsamvinnu og frekar að gefa í ef eitthvað er.