144. löggjafarþing — 132. fundur,  16. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[17:31]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Á föstudaginn minnast menn þeirra tímamóta að fyrir 100 árum öðluðust konur kosningarrétt, sumar hverjar. Það er auðvitað full ástæða til þess að fagna á þessum degi og leggja áherslu á þau grundvallarmannréttindi sem í kosningarréttinum felast.

Þingsályktunartillaga sú sem hér hefur verið mælt fyrir er lögð fram af þessu tilefni, þ.e. í þeim tilgangi að minnast þessa 100 ára afmælis. Ég vil hins vegar lýsa yfir vonbrigðum mínum með þessa þingsályktunartillögu sem ég tel að sé nú ekki neitt annað en enn eitt ríkisútgjaldamálið. Í tillögunni er lagt til að verulega háum fjármunum sé deilt út með afar ómarkvissum hætti í ýmis verkefni sem þarna eru talin upp á sama tíma og fé vantar í mörg nauðsynleg verkefni sem ég veit að er jafnvel þverpólitísk samstaða um að ráðast þurfi í.

Ég ætla auðvitað ekki að tala fyrir hönd allra kvenna eða nokkurra annarra en bara sjálfrar mín, en það er nú mín skoðun að virðingu kvenna sé enginn sérstakur sómi sýndur með þingsályktunartillögu af þessu tagi sem sendir 500 millj. kr. reikning til skattgreiðenda, sem ég leyfi mér að minna á að er um helmingur konur.

Nú kann einhver að segja: Það eru tímamót hér á föstudaginn 19. júní, þarf ekki að halda upp á það? Ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Að sjálfsögðu eigum við að halda upp á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. En ég spyr þá á móti, virðulegur forseti: Þarf alltaf að eyða peningum? Þarf alltaf að gera það? Ég minni á að í aðdraganda þessa afmælis allt þetta ár hefur þessara tímamóta verið minnst með margvíslegum og veglegum hætti — allt árið. Útgjöld vegna þessa eru alveg fyrir utan þau útgjöld sem hér eru lögð til.

Ég vil bara nefna þetta og minni á að dagskrá Alþingis er fyrirhuguð 19. júní, á föstudaginn, með miklum hátíðarbrag, kórsöng og ræðum hæstv. forseta Alþingis og ræðum fyrirsvarsmanna stjórnmálaleiðtoga þeirra flokka sem hér eiga sæti, að ógleymdri ræðu hæstv. forseta Íslands, ef ég skil það rétt. Að mínu mati er það nægileg hátíð sem ég held að við ættum öll að taka þátt í og fagna, en mér þykir rétt að halda því til haga að reikningurinn sem af þessari þingsályktunartillögu hlýst verður sendur að helmingi til til kvenna þessa lands.