144. löggjafarþing — 132. fundur,  16. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[17:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að við hér í þinginu verðum vitni að því að formenn allra stjórnmálaflokka geti við þessi merku tímamót staðið saman að tillögu sem þessari. Auðvitað eru jafnréttismál ein af mikilvægustu málunum yfirleitt sem við ræðum hér í þingsal. Það er mikilvægt fyrir börnin okkar að sjá það að við hér, konur og karla, höfum áhuga á að auka jafnrétti kynjanna og stuðla að því að framtíð þeirra í þessu landi verði meira í þá átt sem okkur dreymir um að sjá. Ég vil að börnin mín alist upp við það að hafa jöfn tækifæri. Ef þessi tillaga verður til þess að það gerist vonast ég svo sannarlega til þess að við öll í þessum sal greiðum henni atkvæði okkar 19. júní. Ég veit það sem móðir stráks og stelpu að það er óásættanlegt horfa á upp það að framtíð þeirra kunni hugsanlega að verða sú að þau muni ekki hafa sambærileg laun fyrir sömu vinnu eingöngu vegna kyns síns. Við eigum hér öll sem eitt að standa saman að því að gera allt sem við getum til að breyta þeirri staðreynd.

Eitt af því sem hægt er að gera er að leggjast í frekari rannsóknir. Sumir segja við mig: Þú ert hægri manneskja. Hvernig getur þú verið að berjast fyrir því að við vinnum hér á þennan hátt að auknu jafnrétti? Er ekki tóm vitleysa að leggja fjármuni í það? Það er einfalt mál að svara því. Það eru efnahagslegir hagsmunir í því fólgnir að auka jafnrétti kynjanna. Það eru efnahagslegir hagsmunir í því fólgnir að fá konur til að leggja sitt af mörkum til jafns við karla í atvinnulífinu hér á landi.

Við höfum heyrt það frá mörgum af sterkustu forsvarsmönnum íslensks atvinnulífs hversu miklu máli það skiptir. Um daginn voru hér þingmenn frá Eystrasaltslöndunum, Rússlandi og Norðurlöndunum á ráðstefnu sem heitir The Northern Dimension. Við tókum slag um það við suma fulltrúana frá þessum löndum að fá að ræða jafnréttismál á þessum vettvangi. Það er ekki sjálfsagt mál í þessum hópi að ræða jafnréttismál, en við tókum slaginn. Ég var stolt af okkur Íslendingum, og sérstaklega af strákunum sem unnu með okkur í þessu verkefni að taka þann slag. Ég er stolt af þeirri baráttu sem utanríkisráðherrann okkar er í og þeirri athygli sem það verkefni fær á alþjóðavettvangi. Ég vonast svo sannarlega til þess að það skili árangri, því að ég trúi því að ef karlar og konur leggjast á eitt munum við ná árangri, vegna þess að saman erum við sterkari. Þannig virkar þetta allt saman.

Hægri menn eiga að skilja það að með því að allir leggist saman á árarnar verður útkoman betri. Ég trúi því. Ég trúi því hins vegar líka að við þurfum að efla rannsóknir í þá veru til þess að sýna fólki það svart á hvítu að efnahagslegur ávinningur af jafnrétti kynjanna er staðreynd. Við sem vorum á The Northern Dimension-ráðstefnunni fórum í heimsókn í Orkuveitu Reykjavíkur en stjórn þess fyrirtækis hefur þá stefnu að auka jafnrétti kynjanna á vinnustaðnum af efnahagslegum ástæðum. Ég trúi því að það séu fjölmörg fleiri fyrirtæki á Íslandi í þeirri stöðu.

Fyrr í umræðunni var talað um þróunarmál og meiri aðstoð í þróunarlöndunum. Það er auðvitað rétt að gera það en við eigum líka að líta okkur aðeins nær. Við erum í samstarfi við ágætar grannþjóðir hér á norðurhveli. Ef við horfum á jafnréttismál til dæmis í norðurhéruðum Rússlands, í norðurhéruðum Kanada og hjá ágætum vinum okkar í Færeyjum, getum við komið mörgu góðu til leiðar þar og aðstoðað við að bæta aðeins í þekkinguna varðandi jafnréttismálin þar. Það er eitt af því sem ég tel að okkur beri að gera og það er eitt af því sem þessi tillaga stuðlar að. Sameinuð erum við sterkari.