144. löggjafarþing — 132. fundur,  16. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[17:40]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er mjög ánægjulegt að vera hér á þeim tímamótum sem verða á föstudaginn og taka þátt í því að halda upp á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna þann 19. júní. Í mínum augum er það heiður að fá að upplifa þessi tímamót sem kona og sem þingmaður.

Verk okkar í þessum málum er að fagna því sem vel er gert, að vinna að því að bæta það sem bæta þarf og miðla þeim árangri út í alþjóðasamfélagið sem við höfum náð hér á Íslandi. Ég er rosalega stolt af íslenskum konum fyrst og fremst fyrir þær byltingar sem þær hafa hrundið af stað, byltingar sem náð hafa heimsathygli, bæði brjóstabyltingin og núna varðandi þöggunina, Konur tala. Eins er ég stolt af því starfi sem utanríkisráðherra hefur tekið þátt í og í rauninni þeim árangri sem við höfum náð. Við tökum fleiri með okkur í það starf og kennum þeim.

Markmið Jafnréttissjóðs eru talin upp í þingsályktunartillögunni, þar á meðal verkefni sem ætlað er að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. Fyrsta ræðan mín úr þessum ræðustól fjallaði einmitt um heimilisofbeldi. Á sama tíma og við vinnum að þessum byltingum, á sama tíma og við stofnum Jafnréttissjóð Íslands, koma fréttir um að stór hluti kvenna á Íslandi verður fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað sínum.

Ég er mjög ánægð að setja eigi af stað þróunarverkefni í skólakerfinu og stuðla að sterkri sjálfsmynd, bæði hjá piltum og stúlkum, og kenna kynjafræði. Mér finnst aldrei lögð of mikil áhersla á hversu mikilvægt það er að hafa kynjafræði í skólum.

Það kemur líka fram hér að styðja eigi við verkefni sem hvetja ungt fólk af báðum kynjum til aukinnar þátttöku í stjórnmálastarfi. Það er mjög ánægjulegt fyrir mig sem unga konu í stjórnmálum að sjá það. Oft hefur verið talað um að það sé erfitt fyrir ungar konur að koma inn í stjórnmál og taka þátt í þeim. Um leið og við leggjum þessa þingsályktunartillögu fram vil ég hvetja sérstaklega ungar konur til þess að láta til sín taka hvar sem þær vilja koma fram, hvar sem þær vilja taka þátt, því að eins og ég sagði áðan eru íslenskar konur rosalega sterkar og saman getum við alveg náð gífurlegum árangri. Ég er því mjög ánægð að sjá þessa þingsályktunartillögu fyrir Alþingi og hlakka til hátíðarhaldanna 19. júní.