144. löggjafarþing — 133. fundur,  19. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[11:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Forseti Íslands. Kæru hátíðargestir. Kæru Íslendingar sem heima sitjið. „Vér vitum vel, að auknum réttindum fylgja auknar skyldur. En vér tökum hvoru tveggja með gleði,“ sagði Ingibjörg H. Bjarnason í ræðu þann 19. júní 1915 þegar konur öðluðust loksins kosningarrétt og kjörgengi. Þrátt fyrir aukinn rétt gengu hlutirnir heldur hægt fyrir sig og höfðu 60 árum síðar einungis níu konur setið á þingi.

Í þingræðu í aðdraganda þess atburðar sem við fögnum nú hér sagði einn þingkarlinn:

„Þótt ég sé kvenhollur, þætti mér ekkert gaman að því að mega búast við einum 20 konum á þing allt í einu.“

Þó að konur hafi brotið 20 kvenna múrinn meira en minna síðan um aldamótin hefur okkur nú, 100 árum síðar, enn ekki tekist að fylla helming sætanna í þessum sal, hvað þá meira en það. Einungis í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafa konur og karlar skipt jafnt með sér sætum í ríkisstjórn. Þannig hafa karlar verið í meiri hluta í ríkisstjórn í 96 ár af síðustu 100 og í embætti forsætisráðherra í 95 og hálft ár af síðustu 100. Og stjórnarflokkarnir, tveir elstu flokkar landsins, hafa aldrei verið leiddir af konu.

Við vorum stolt þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna í heiminum, en hún er enn sú eina sem hefur gegnt því embætti.

Þessar staðreyndir sýna að hlutur kvenna hingað til er enn bara eins og sýnishorn. Það er ekki norm í íslenskum stjórnmálum að konur séu forsætisráðherrar, það er ekki norm að konur séu jafnar körlum eða fleiri hér í þessum sal eða í ríkisstjórn. Og konur hætta almennt fyrr en karlar í stjórnmálum. Því er þetta enn verkefni og læt ég mig dreyma um að upplifa slíka róttæka breytingu að það heyri ekki til frétta að kjörnar verði fleiri konur á þing eða að kona verði forsætisráðherra.

Kosningarréttur kvenna fékkst ekki án átaka, en breytt hugarfar varð líklega að stærri hindrun en nokkur hefði getað ímyndað sér.

Á kvennafrídaginn árið 1975 sagði Svava Jakobsdóttir, þá ein af þremur konum sem sátu á þingi:

„Í ljósi þess að þjóðfélagsleg forusta, ákvarðanatektin, er nær öll í höndum karlmanna, verður sú spurning áleitin í dag hvort íslenskar konur hafi með vinnu sinni ráðið nokkru að marki um þjóðfélagsgerðina. Hefur vinna okkar þjónað því markmiði að byggja upp þjóðfélag eftir okkar höfði, eins og við viljum hafa það, eða hefur vinna okkar verið notuð til að byggja upp þetta þjóðfélag eftir forskrift ráðandi karlmanna? Þetta er samviskuspurning sem okkur er skylt að leggja fyrir okkur sjálfar í dag.“

Hvert er svarið við samviskuspurningu Svövu nú 40 árum síðar? Erum við að móta samfélag eftir höfði kvenna? Svar mitt er: Nei, ekki nægjanlega. Það má vissulega benda á margt sem hefur áunnist, ekki síst fyrir tilstuðlan Kvennalistans sem braut blað í stjórnmálasögu kvenna. Við höfum komið á dagvistun fyrir öll börn, fleiri konur menntast, fleiri konur eru í stjórnunarstöðum, konur geta nú leitað aðstoðar vegna ofbeldis sem þær eru beittar og fleiri konur sitja hér í þessum sal.

Breytingarnar hafa orðið í beinu samhengi við aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum en þær hafa ekki orðið nándar nægar.

Ekki voru það bara konur yfir fertugu sem fengu kosningarrétt fyrir 100 árum og því er það engin tilviljun að jafnaðarmannahreyfingin á einnig 100 ára afmæli á næsta ári. Í kjölfar þess að valdaminnstu hópar þess tíma fengu lýðræðislegan þátttökurétt varð til hreyfing sem barðist fyrir auknum réttindum þeirra og valdeflingu. Jafnaðarmenn um allan heim hafa staðið fyrir samfélagsbreytingum í jafnréttisátt á undanförnum 100 árum og halda áfram að ryðja brautina. Hún var stofnuð sem svar við almennum kosningarrétti og hún setti á dagskrá stjórnmálanna afkomu og réttindi venjulegs fólks.

Við jafnaðarmenn berjumst fyrir auknum völdum kvenna því að þau eru forsenda farsæls samfélags. Við vitum að umönnunarhlutverk kvenna hefur enn áhrif á framgang þeirra í atvinnulífinu og að ófullnægjandi velferðarþjónusta bitnar á konum sem enn sinna börnum, öldruðum og veikum fjölskyldumeðlimum í meira mæli en karlar. Við vitum að fæðingarorlofið og styttri vinnudagur eru jafnréttistæki sem þarf að nota betur og enn þarf að vinna bug á kynbundnum launamun.

Við berjumst gegn kynbundnu ofbeldi. Ofbeldi gegn konum minnkar ekki heldur tekur á sig nýjar myndir, eins og nýjasta bylgja femínískra aðgerða á Íslandi ber vitni um. Brjóstabyltingin berst gegn hrelliklámi og á „Beauty tips“-síðunni rjúfa konur þöggunina sem ríkt hefur um ofbeldið sem þær hafa mátt þola af hendi karla.

Það eru því næg verkefni fram undan og þá verðum við líka að muna að konur eru ekki einsleitur hópur og aðgerðir í þágu jafnréttis verða að endurspegla þarfir ólíkra einstaklinga. Sérstaklega þarf að huga að stöðu kvenna af erlendum uppruna, kvenna með fötlun og kvenna sem búa við fátækt.

Við megum gleðjast í dag og þakka fyrir framfarirnar sem orðið hafa vegna þátttöku kvenna í stjórnmálum, en á morgun heldur baráttan áfram.