144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Það eru nú þrjár vikur síðan starfsáætlun lauk hér í þinginu. Það er ljóst að meiri hlutanum er fyrirmunað að leggja fram nokkra raunhæfa áætlun um þinglok. Við sjáum engin merki þess að áhugi sé á því að leggja fram slíka áætlun. Við erum rétt eins og aðrir í samfélaginu að súpa seyðið af því að hér er engin verkstjórn, það er engin yfirsýn yfir hver forgangsmálin eru, hvað það er sem fólk vill að verði afgreitt í lok þingsins í sumar. Þannig að ég, virðulegi forseti, fyrir hönd þingflokks Vinstri grænna óska mjög eindregið eftir því að við fáum starfsáætlun sumarþings þannig að við getum skipulagt okkur þar sem við þurfum ekki síst að sinna aðhaldshlutverki okkar gagnvart framkvæmdarvaldinu og þar á meðal að fá hér settar á dagskrá beiðnir um sérstakar umræður, tilefnin eru næg. Ég bið virðulegan forseta að hlutast til um að (Forseti hringir.) slíkt plan verði sett fram hið fyrsta.