144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er kominn 22. júní, það þýðir að við erum búin að vera hér í meira en þrjár vikur í óvissuferð, ef við getum orðað það þannig, og það fer auðvitað að hafa áhrif á starfsanda á þinginu þegar hver dagur er meiri óvissuferð en sá sem á undan kom. Ég vil því nota tækifærið og taka undir með kröfum hv. þingmanna sem hér hafa talað. Það er mjög mikilvægt að við förum að lenda því hvernig við ætlum að haga málum í sumar. Sú krafa er eðlileg sem hér er uppi að við fáum starfsáætlun fyrir sumarþing. Það er eðlilegt að við fáum að vita hvenær ætlunin er að svara undirbúnum fyrirspurnum, eða þurfum við að fara að spyrja þeirra í óundirbúnum fyrirspurnum? Verða sérstakar umræður? Það sér hver maður að enginn bragur er á þinghaldinu eins og það hefur verið undanfarnar þrjár vikur. Því fyrr sem við fáum einhverja framtíðarsýn í þeim efnum þeim mun betra, þeim mun betra fyrir Alþingi.