144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er ljóst að erfiðlega gengur að koma saman einhvers konar samkomulagi um þinglok, því tel ég að það sé nauðsynlegt að við fáum starfsáætlun. Það er líka ljóst að forseti virðist vera í einhverjum erfiðleikum með að koma starfsáætlun til okkar og ég býðst hreinlega til þess með þingmönnum minni hlutans að koma fram með einhvers konar starfsáætlun ef það reynist svona erfitt fyrir forseta að gera það. En það er alveg nauðsynlegt að við getum haft hér hefðbundin þingstörf samkvæmt hefðbundinni dagskrá þannig að fólk geti skipulagt sig, hvort sem það eru þingmenn í minni hluta eða meiri hluta. Það gengur ekki að við séum hér í óvissuferð, eins og einhver nefndi áðan, viðstöðulaust. Það er mjög vond stjórnsýsla. Það veit forseti og það vita þingmenn meiri hlutans alveg eins og við í minni hlutanum. Ég skora á forseta að koma með starfsáætlun.