144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tek undir þakkir til þeirra sem stóðu að undirbúningi og framkvæmd hátíðahaldanna undanfarna daga.

Varðandi stöðuna hér í þinginu er málið ekki alveg svona einfalt eins og hér er lagt upp með af þeim sem nú koma upp og lýsa yfir áhyggjum af því hvernig bragurinn er á þingstörfunum. Við skulum ekki horfa fram hjá því að átök hafa verið hér um ákveðin mál í þinginu sem hafa leitt til þess að menn hafa misnotað dagskrárliði eins og um fundarstjórn forseta svo vikum hefur skipt á undanförnum mánuðum. Stjórnarandstaðan stillir ríkisstjórninni upp við vegg og segir: Þið fáið ekki að afgreiða þetta mál. Þið fáið ekki að afgreiða rammaáætlun vegna þess að við erum á móti því. Meirihlutaviljinn fær ekki að koma þar fram. Þið fáið ekki að afgreiða makrílmálið svona og það skiptir engu máli þó að menn komi með einhverjar aðrar útfærslur á því. Þið fáið ekki að afgreiða Þróunarsamvinnustofnunina. Þið fáið ekki að afgreiða þetta mál og þið fáið ekki að afgreiða hitt. Okkur er alveg sama hvernig meirihlutavaldið liggur hérna á þinginu vegna þess að við ætlum að stoppa það að þessi mál komist til atkvæðagreiðslu.

Þetta eru skilaboðin sem stjórnarandstaðan kemur með. Auðvitað geta menn ekki bara beygt sig undir það.

Ef menn vilja hafa einhvern brag hér á þinginu ættu þeir kannski að (Gripið fram í.) horfa aðeins meira til þess hver úrslit kosninga voru og hvernig (Forseti hringir.) meirihlutaviljinn (Gripið fram í.) liggur hér á þinginu í einstökum málum. Það eru takmörk fyrir því (Forseti hringir.) í hversu mörgum málum stjórnarandstaðan getur stillt ríkisstjórninni upp við vegg, meirihlutaviljanum á þinginu, og sagt: Þetta kemur ekki til greina.