144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta snýst í rauninni ekki um braginn hérna á þinginu. Það er alveg ljóst að landsmenn treysta ekki þessari stofnun og réttilega gera þeir það ekki. Meiri hlutinn á þingi er það sem hæstv. fjármálaráðherra er alltaf talandi um, en hvað ef meiri hlutinn á þingi vill ganga gegn meiri hlutanum í samfélaginu, þeim sem valdið á raunverulega að liggja hjá? Þeir tala bara um að það sé kosið á fjögurra ára fresti. Það er bara mjög grunnt lýðræði, mjög grunnt lýðræði og landsmenn vilja fá dýpra lýðræði. Landsmenn vilja fá málin til sín, stóru málin. Það sem við höfum verið að gera hérna, að beita málþófi að sjálfsögðu, er af því að meiri hluti þingsins vill ganga gegn meiri hluta landsmanna. Nú hafa 51 þús. manns skrifað undir áskorun um að ekki sé samþykkt á Alþingi og gert að lögum að fiskveiðiauðlindum sé ráðstafað til lengri tíma en eins árs. En það er nákvæmlega það sem meiri hlutinn á þinginu vill gera, hann vill ráðstafa með lögum fiskveiðiauðlind, makríl, nýrri auðlind, til lengri tíma en eins árs. Ef þetta fer eins og stjórnarliðarnir vilja, að makríllinn er settur inn (Forseti hringir.) í hefðbundna kvótakerfið, þeir (Forseti hringir.) hafa bakkað með þetta inn í það, þá tekur það sex til þrjátíu ár að ná því aftur til þjóðarinnar. Það er ráðstöfun á fiskveiðiauðlind með lögum (Forseti hringir.) til lengri tíma en eins árs.