144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Róberti Marshall, vegna þess að sá hæstv. fjármálaráðherra sem stóð hér áðan er greinilega búinn að steingleyma því að hann samdi við okkur um það að koma hér inn með stórt mál eftir að starfsáætlun lauk í byrjun júní og við tókum því fagnandi vegna þess að um stórmál væri að ræða og vildum endilega greiða götu þess í gegnum þingið.

Virðulegi forseti. Þessi sami hæstv. fjármálaráðherra stendur síðan hér og eys skömmum yfir okkur, stjórnarandstöðuna. Erum við að leggja fram mál í júní sem menn vilja koma í gegn í þessum mánuði? Nei, það erum við ekki. Það er þessi ríkisstjórn sem ræður ekki við að halda utan um stóru myndina, stóru myndina af þeim málum sem hún þarf og vill fá í gegn. En það er eitt sem er hárrétt hjá honum, þessi stjórnarandstaða mun aldrei hleypa í gegnum þingið máli þar sem á að fara að gefa (Forseti hringir.) nýja tegund innan lögsögunnar, makrílinn, í hendur þeirra sem fyrir eiga (Forseti hringir.) töluvert af honum. Gjafakvótakerfið verður ekki afgreitt hér á okkar vakt.