144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri þakka starfsfólki þingsins fyrir aðkomu þess að 19. júní. Ég ætlaði nú að hrósa Sjálfstæðisflokknum, það liggur við að ég hætti við að gera það, af því að ég held nefnilega að það sé hægt að ná samkomulagi um þinglok við Sjálfstæðisflokkinn, ég efast hins vegar um aðkomu Framsóknarflokksins að þeim málum.

Virðulegi forseti. Um misnotkun á fundarstjórn. Ráðherrann kvartar yfir að fólk sé að tala hér í málum. En eins og hér var rakið þá koma mál allt of seint fram, allt of seint, og það eru þau mál sem ríkisstjórnin vill helst fá afgreidd núna án umræðu eða a.m.k. án mikillar umræðu. Það segir í 10. gr. þingskapa, með leyfi forseta:

„Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið og gerir starfsáætlun fyrir hvert þing.“

Og síðar segir að sumarhlé þingsins sé frá 1. júlí til 10. ágúst og ekki skuli boða til nefndafunda á þeim tíma nema brýn nauðsyn krefji.

Því er ekki óeðlilegt að við spyrjum: Þarf forsætisnefnd og hæstv. forseti aðstoð (Forseti hringir.) við að gera starfsáætlun? Við erum örugglega nokkur hér sem höfum gert áætlanir, hvort sem það eru vaktatöflur eða starfsáætlanir, og getum boðið fram aðstoð okkar. Þetta er ólíðandi. (Forseti hringir.) Við eigum fjölskyldur eins og allir aðrir, væntanlega líka þeir sem eru í þessari ríkisstjórn, (Forseti hringir.) og þurfum að skipuleggja okkur og okkar tíma. Það er ekki hægt með svona áframhaldi.