144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er staða fyrirspurna til ráðherra á yfirstandandi þingi þannig að 16 fyrirspurnir liggja fyrir. Í eðlilegu árferði væri fyrirspurnatími í dag. Þessum 16 fyrirspurnum er enn þá ósvarað. Svo vil ég segja annað. Ég er ósammála hæstv. fjármálaráðherra um skilning hans á lýðræðinu. Ég er ósammála því. Ég er ósammála því hvernig hann leggur ítrekað upp þann skilning sinn að meiri hlutinn ráði, alveg sama hvað, að meiri hlutinn vaði yfir, alveg sama hvað. Lýðræðið snýst nefnilega um að tryggja að rödd minni hlutans heyrist, það er það sem er snúið, þá fyrst verður það erfitt, þá fyrst verður það krefjandi. Þá fyrst verður það alvöruverkefni fyrir alvörustjórnvöld að hlusta líka eftir röddum minni hlutans. Þegar menn koma inn með stór ófriðarmál eins og (Forseti hringir.) breytingartillögu um rammaáætlun og eins og makrílmálið (Forseti hringir.) þá mun minni hlutinn tala, hann hefur gert það, (Forseti hringir.) hann gerir það og hann mun gera það svo lengi sem við ætlum að standa undir nafni sem lýðræðissamfélag.