144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þá ósk að sett verði upp starfsáætlun fyrir næstu daga og vikur í þinginu. En mig langar að gefnu tilefni eftir ræðu hæstv. ráðherra Bjarna Benediktssonar að minna enn einu sinni á hvað það er sem skilur á milli einræðisríkja og lýðræðisríkja í heiminum. Á hvað er horft þegar menn skoða hver staða þjóðþinga er? Það er stjórnarandstaðan. Það er réttur stjórnarandstöðunnar. Það er tækifæri til þess að hafa skoðanir, koma sínum málum fram og það er tilætlun til þess að stjórnvöld á hverjum tíma semji við þá sem eru fulltrúar minni hluta á þinginu.

Ég krefst þess að ríkisstjórnin komi sér í fyrsta lagi saman um mál, hvaða málum hún vilji ljúka. Í öðru lagi að hún komi fram með óskir um það sem hún vill ljúka þannig að hægt sé að ræða það. Hvorugt er til staðar. Við höfum ítrekað sagt: (Forseti hringir.) Við viljum að mál séu afgreidd en ekki hent út af dagskrá, við fáum tíma til að klára þau. (Forseti hringir.) En til þess að vita hver forgangurinn er þá þurfum við að heyra (Forseti hringir.) frá stjórnarliðum sem eru greinilega í vandræðum með að sannfæra hver annan.