144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í þingsköpum segir, með leyfi forseta: „Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið og gerir starfsáætlun fyrir hvert þing.“

Nú er þessi starfsáætlun runnin út og forsætisnefnd er ekkert að skipuleggja þinghaldið. Það er bara ekki þannig. Forsætisnefnd hefur ekkert fundað í á aðra viku. Forsætisnefnd er ekki að skipuleggja þinghald, forseti gerir það einn og gerir það í umboði hverra? Það virðist ekki vera vel haldið á þessu. Það er að sjálfsögðu sanngjarnt að við fáum einhverja starfsáætlun, fáum að sjá hvernig þetta á að vera. Fyrst við ætlum að halda áfram þá verðum við að fá aðra þætti eins og sérstakar umræður á dagskrá. Minni hlutinn hefur kallað eftir því að kosið verði um það, þá á morgun í upphafi þingfundar eða seinna í dag, að við fáum sérstakar umræður á dagskrána. Það er eitt atriði sem er mjög mikilvægt að fá sérstaka umræðu um, það er hættuástandið sem komið er upp í heilbrigðiskerfinu í kjölfar þess að (Forseti hringir.) lög voru sett á verkföll heilbrigðisstarfsmanna og margir eru að segja upp. (Forseti hringir.) Við þurfum að fá að vita hvernig staðan er, við þurfum að fá góða umræðu í þinginu um þetta og önnur mál. (Forseti hringir.) fyrst við ætlum að halda áfram. Það er gott. Við skulum halda áfram. Þá hefur minni hlutinn enn þá sín verkfæri. Höldum bara áfram sem lengst.