144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alltaf talað um þessa samninga í lok þings eins og einhver hrossakaup, en ástæðan fyrir því að menn eru að semja er sú að þá eru bæði stjórn og stjórnarandstöðuþingmenn að samþykkja að gefa eftir málfrelsi sitt í ákveðnum málum til þess að mál geti gengið hraðar fyrir sig en ella, um það snýst þetta. Þess vegna tökum við þetta alvarlega. Við erum búin að vera tilbúin til þess núna í margar vikur að eiga samstarf um það hvernig þetta geti átt sér stað, en það er algjörlega ljóst að ekki er hægt að ná slíku samkomulagi, það er heldur enginn vilji til að ná slíku samkomulagi við stjórnarandstöðuna. Og þá segjum við bara gott og vel, virðulegi forseti, settu starfsáætlun fyrir þingið, fundatöflu, og förum að taka fyrir sérstakar umræður sem beiðnir hafa legið fyrir um frá því í janúar og fyrirspurnir sem væri mikilvægt að koma á dagskrá og hættum þeim leikaraskap að halda að hér verði samið. Það verður (Forseti hringir.) ekkert samið. Förum að setja upp fundatöflu og starfsáætlun (Forseti hringir.) af því að þetta er bara orðið kjánalegt, virðulegi forseti.