144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Við hljótum mörg að undrast það að á þessum sex dögum sem þingið hefur ekki setið — vissulega hafa verið mikil hátíðarhöld, bæði þjóðhátíðardagurinn og svo var fagnað 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna með veglegum hætti, en það er samt undarlegt að tíminn hafi ekki verið notaður til þess að reyna að ná samkomulagi hér í salnum. Ég held að við séum flest vön því að reyna að klára þau verk sem fyrir liggja þótt það séu hátíðisdagar í lífi okkar og þjóðarinnar. Fyrir okkur liggur það verk að klára þetta þing. Ef ekki þá hljótum við að eiga kröfu á því, forseti, að fá starfsáætlun svo við getum sinnt venjulegum þingstörfum með öllu sem því tilheyrir.