144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er eins og alltaf þegar maður tekur til máls hér þá er reynt að toga og teygja það sem maður hefur verið að segja. Ég hef vakið athygli á því að vilji meiri hlutans í þinginu þarf að koma fram í stórum málum. Þá er sagt að ég vilji fótum troða minni hlutann. Það er ekki rétt. Það er bara allt annað mál. Það er fjöldinn allur af málum sem hefur fengið góðan undirbúning í nefndum í allan vetur sem er tilbúinn til afgreiðslu en þau hafa ekki komist á dagskrá m.a. vegna þess að hér hefur málþófi verið beitt í málum sem ágreiningur hefur verið um. Menn hljóta að kannast við það. Menn hafa nánast gengist við því hér ítrekað að þeir ætli sér ekki að hleypa máli áfram vegna þess að málþófi er beitt. Það er bara svona einfalt.

Varðandi rétt minni hlutans. Ég get vel tekið undir það með hv. þingmanni sem hér kom upp að við eigum að þróa okkar lýðræði meira í átt til beins lýðræðis. En hver verður réttur minni hlutans þegar greidd verða atkvæði í beinu lýðræði í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hver verður réttur þeirra 40% sem verða undir? (Forseti hringir.) Þau verða bara einfaldlega undir. Þannig er það líka í fulltrúalýðræðinu. Þannig hefur það alltaf verið hér. Ef menn ganga til atkvæða þá er það (Forseti hringir.) meiri hlutinn sem á endanum vinnur í atkvæðagreiðslu. Nákvæmlega eins og í beinu lýðræði.