144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er nefnilega vandmeðfarið þetta lýðræði, lýðræðishugtakið, af því að það hentar sumum bara stundum og stundum ekki. Í þessu tilfelli eins og hér hefur verið ítrekað rætt um þá skiptir máli að stór mál fari oftar til þjóðarinnar en verið hefur fram til þessa. Hæstv. ráðherra er önugur vegna þess að við erum ekki að afgreiða stór mál, við erum að móast við og það er alveg rétt. Við höfum viðurkennt það og ég skammast mín ekki fyrir það að tala hér fram í rauðan dauðann um mál sem ég er bara alls ekki sátt við að fari í gegnum þingið. Það er minn réttur til þess að koma í veg fyrir mál sem mér þykir vera vond, burt séð frá því hvað ríkisstjórnarflokkunum á Alþingi þykir. Þannig er það meðan ríkisstjórnarflokkarnir vilja ekki breyta stjórnarskrá, það á nú hæstv. fjármálaráðherra sem var í síðustu stjórnarandstöðu að vita, hann stóð m.a. í vegi fyrir því og Sjálfstæðisflokkurinn, vildi ekki auðlindaákvæði og annað inn í stjórnarskrána og beitti sér mjög gegn því. Það er þeirra réttur. Það er ekki rangt, hæstv. (Forseti hringir.) innanríkisráðherra. Það kom hér ítrekað fram. Það var meðal annars það sem þáverandi minni hluti vildi (Forseti hringir.) semja út af borðinu eins og margt annað.