144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

áætlun um þinglok.

[15:44]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vildi rétt hnykkja á því í lokin að auðvitað getur ríkisstjórnin farið í gegnum þingið með öll þau mál sem hana dreymir um að fara með í gegn. Hún þarf bara að koma snemma fram með málin. Þau þurfa að fá þinglega meðferð …(Gripið fram í.) Þessar dagsetningar eru gefnar út, hæstv. fjármálaráðherra, í upphafi þings. Menn vita nákvæmlega hvaða dagsetningar þetta eru. (Gripið fram í.) Við erum að fást hérna við mál sem eru komin löngu eftir þær dagsetningar. Það eru þau mál sem stífla hér allt. Svo vissu menn auðvitað út í hvaða leiðangur þeir voru að fara þegar þeir komu með stórkostlegar breytingar á rammaáætlun. Meðal þeirra mála sem enn standa út af og á eftir að útkljá og semja um er hvað verður um gildistöku náttúruverndarlaga sem ætluð er núna um mánaðamótin. Ég gerði mér sérstaka ferð í umhverfisráðuneytið í síðustu viku og fór á fund umhverfisráðherra til þess að lýsa skoðunum mínum á því hvernig það þyrfti að gerast, hvaða málsmeðferð væri æskileg og það er sjálfsagt (Forseti hringir.) að menn tali saman (Forseti hringir.) um þetta. Hvað hefur gerst síðan þá? Ekki neitt. Það hefur ekki einu sinni verið sendur tölvupóstur, ekki símtal, ekki SMS, til þess að ákveða (Forseti hringir.) hvert framhald málsins verður. Þetta er náttúrlega ekki boðlegt.