144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

kjarasamningar heilbrigðisstétta.

[15:49]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður þekkir hvernig samningar ganga fyrir sig á opinberum vinnumarkaði. Ráðherrar eru ekki á fundum dagsdaglega með samningsaðilum eða gefa fyrirskipanir um að það eigi að gera þessar breytingar eða hinar. Menn leggja ákveðnar meginlínur sem samninganefnd ríkisins svo fylgir. Hér hafa verið lagðar ákveðnar meginlínur í samningum, ekki bara á opinbera markaðnum heldur á almenna markaðnum líka. Meginlínurnar eru þær að við viljum halda áfram að auka kaupmátt — við viljum halda áfram að auka raunverulegan kaupmátt, m.a. til þess að stéttir eins og hjúkrunarfræðingar fái betri kjör og fáist þá heldur til þess að vinna hér á landi áfram. Það er engin lausn á málum að fara í hækkanir sem skila sér eingöngu í aukinni verðbólgu, efnahagslegum óstöðugleika og fyrir vikið lakari kjörum fyrir alla hópa. Þess vegna liggur fyrir að eftir að samningar náðust á almenna markaðnum var í rauninni merki gefið um hvað væri hægt í samningum og sem betur fer er hægt að ná mjög mikilli kaupmáttaraukningu áfram, meðal annars fyrir heilbrigðisstéttir, ekki hvað síst. Þar erum við að ræða um prósentur sem eru langt, langt umfram það sem menn sjá nokkurs staðar annars staðar. Hvergi annars staðar í Evrópu og allra síst á Norðurlöndunum geta menn vænst viðlíka launahækkana eins og verið er að bjóða á Íslandi. Sem betur fer lítur út fyrir að megnið af þessum hækkunum muni skila sér í raunverulegri kaupmáttaraukningu. Við förum ekki að fórna því núna með því að leggja þann ávinning sem hefur náðst í rúst, eyða honum með því að setja hér verðbólguna á skrið og efnahagslífið á hliðina. Við munum standa vörð um kaupmáttinn fyrir allar stéttir í landinu.