144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

kynbundinn launamunur.

[15:56]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef lengi talað fyrir því að menn reyndu að hækka laun þeirra stétta sem dregist hafa aftur úr öðrum stéttum. Því miður eru allmargar stéttir sem stundum eru kallaðar kvennastéttir, vegna þess að konur eru þar í meiri hluta, með tiltölulega og oft mjög lág laun.

Það er hins vegar fráleitt að halda því fram að lagasetning á verkfall hafi eitthvað með það að gera að kynjahlutföll séu með tilteknum hætti í þeirri stétt sem um ræðir, ekki frekar en að það hafi verið sérstök lög á karlmenn þegar lög hafa verið sett á flugvirkja, flugmenn eða sjómenn.

Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra að bæta kjör allra hópa í samfélaginu og í þeim tilvikum þar sem kvennastéttir, sem hv. þingmaður kallar svo, eru með sérlega lök kjör hlýtur það líka að vera markmið okkar að huga sérstaklega að því. Það ætti að vera hvetjandi í vinnu við að ná slíkum markmiðum að líta til þess að jöfnuður hefur aukist verulega á Íslandi síðustu missiri og hefur reyndar aldrei verið meiri en nú. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur jöfnuður haldið áfram að aukast, tekujöfnuður hefur aukist og fátækt minnkað. Það eru sífellt færri í þeim hópum sem teljast vera með tekjur sem eru of lágar til að standa undir nauðþurftum svoleiðis að vissulega hefur náðst heilmikill árangur og það er árangur til að byggja á. Við munum halda því áfram.

Á síðasta ríkisstjórnarfundi samþykkti ríkisstjórnin áætlun um kynjaða hagstjórn þar sem meðal annars verður litið til slíkra þátta. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur kynnt ýmsar aðgerðir til að stuðla enn að jöfnum rétti kynjanna og því að vinna á kynbundnum launamun þannig að þetta er verkefni sem við hljótum að geta unnið (Forseti hringir.) öll saman að og unnið er að í öllum ráðuneytum.