144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

kynbundinn launamunur.

[15:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst rétt að taka fram að ég sagði ekkert um það að lög hefðu verið sett á verkfall hjúkrunarfræðinga af því að þar væri um kvennastétt að ræða. Hæstv. forsætisráðherra sá ástæðu til að leiðrétta það en um það sagði ég ekkert. Ég hef hins vegar mjög miklar efasemdir um að slík lagasetning þjóni þeim markmiðum sem hæstv. forsætisráðherra hefur sett sér á alþjóðavettvangi um að jafna kynbundinn launamun á Íslandi. Það er ekki bara ég sem tala um hjúkrunarfræðinga sem kvennastétt heldur verðum við bara að horfa á kynjahlutföllin innan stéttanna eins og þau eru. Við vitum ósköp vel að þar eru konur í meiri hluta og það er það sem fulltrúar hjúkrunarfræðinga hafa bent á í sinni kjarabaráttu, það að þeirra laun hafi dregist aftur úr sambærilegum stéttum og nefna þetta sem eina af hugsanlegum ástæðum.

Ég held að því fyrr, eins og sagt er í þessum heimi, sem við viðurkennum vandann sé auðveldara að takast á við hann. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. forsætisráðherra. Það er alveg rétt hjá honum að jöfnuður hefur aukist í tekjudreifingu. Það verk var ekki síst unnið af síðustu ríkisstjórn eins og sjá má af tölum frá 2014, en hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra að beita sér fyrir því að afmá þennan kynbundna launamun? (Forseti hringir.) Telur hann að það þurfi að gera eitthvað sérstakt fyrir þær stéttir þar sem konur eru í miklum meiri hluta og eru því gjarnan kallaðar kvennastéttir, ekki bara af þeirri sem hér stendur heldur í almennu tali í samfélaginu?