144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

háskólamenntun og laun.

[16:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er stundum sagt, a.m.k. á hátíðisdögum, að menntun borgi sig og mann langar til að geta sagt með góðri samvisku við börnin sín að það borgi sig að mennta sig og mann langar til að búa í þannig þjóðfélagi. Ég held að það sé skynsamlegt að hafa þjóðfélagið þannig að fólki sé umbunað á einhvern hátt fyrir menntun og þekkingu og að við fáum þá meiri verðmætasköpun í þjóðfélagið og heilbrigðara og fallegra samfélag en allt þetta finnst mér vera í hættu á Íslandi.

Nú var að koma könnun þar sem við erum borin saman við aðrar Evrópuþjóðir hvað varðar það hvort háskólamenntun skili hærri launum. Við komum síst út, háskólamenntun skilar sér síst í hærri launum miðað við önnur menntunarstig á Íslandi af öllum Evrópulöndum. Það eru sem sagt áhöld um það á Íslandi hvort það borgi sig að leita menntunar og hvort fólki sé í raun umbunað fyrir þá fjárfestingu.

Ég held að við horfum upp á samfélag núna sem einkennist af því að fólk einfaldlega sér þetta og upplifir á eigin skinni. Bandalag háskólamanna hefur verið í hvað mestum verkfallsaðgerðum á vinnumarkaði og hefur bent á það um langt skeið að ekki hefur verið settur nægur kraftur í það á Íslandi að reyna að hanna fjölbreytt samfélag og fjölbreytt atvinnulíf sem umbunar fyrir menntun. Það er áhyggjuefni að hvatinn til menntunar er mögulega ekki lengur nógu ríkulega til staðar á Íslandi. Auðvitað á ekki að vera of mikið bil á milli fólks þegar kemur að menntunarstigi en það á þó að vera (Forseti hringir.) þó nokkurt bil þannig að fólk sjái hag sinn í því að mennta sig.

Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessum tölum, hvernig eigi að begðast við og hver sé hans sýn á þetta vandamál.