144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

leynilegt eftirlit með almenningi.

[16:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég get ekki mótmælt því, alla vega ekki því síðasta sem hæstv. ráðherra sagði. En þá verðum við líka að spyrja okkur þessarar pólitísku spurningar: Hvenær höfum við ákveðið að örygginu sé ógnað?

Sem dæmi þá velti ég fyrir mér hvers vegna lögreglumenn þurfi að vera óeinkennisklæddir á svona hátíð til þess að gæta að öryggi. Ef maður gengur af göflunum þarf lögreglumaður ekki að vera óeinkennisklæddur til að koma á vettvang og takast á við þær aðstæður. Sömuleiðis ef maður er ofurölvi þá er ekki nóg fyrir hann að fela bokkuna, hann er enn ofurölvi og það er venjulega augljóst. Ég sé ekki alveg hvaða þörf það er sem menn segja réttlæta óeinkennisklædda lögreglumenn á hátíðum sem þessum, nema vegna þess að hið pólitíska andrúmsloft hefur í nokkra áratugi verið þannig að þegar kemur að vímuefnum þá einhvern veginn megi lögreglumenn allt, þá hverfi borgararéttindi fljótt. Það er þess vegna sem ég brydda upp á þessu. Hvað ef brotið er ekki nógu alvarlegt til þess að það þurfi hreinlega óeinkennisklæddan lögreglumann til að komast að því að það hafi verið framið? Hvernig getur slíkt brot talist svo alvarlegt að það réttlæti slíkar aðgerðir?