144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

ný starfsáætlun.

[16:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að meiri hlutinn átti sig á því að þó svo að hann setji okkur á fundatöflu á hverjum degi þegar verið er að fjalla um málefni hér á þingi og fer síðan út, að það verður erfitt fyrir meiri hlutann að hverfa, því að við munum tryggja að hér verða settar á dagskrá dagskrárbreytingartillögur sem kalla á að meiri hlutinn mæti hér í þingið til þess að taka þátt í þingstörfum. Ég veit að fjöldamargir starfsmenn þingsins, sem eiga að njóta ákveðinna kjararéttinda, hafa ekki getað tekið út sumarleyfi sín á tilsettum tíma. Mér finnst það mjög bagalegt. Ég vil segja að meiri hluti þingsins beri algjöra ábyrgð á því. Svo finnst mér bara allt í lagi að tekið sé tillit til þess að við þingmenn erum líka manneskjur og eigum okkar fjölskyldur. Mér finnst ótækt að við getum ekki fengið að skipuleggja frí okkar, ef við eigum að fá frí, að við getum alla vega sagt við börnin okkar: Það verður ekki neitt frí (Forseti hringir.) í sumar.