144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

ný starfsáætlun.

[16:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Auðvitað er þetta vandasamt ef verkstjóralaus ríkisstjórn kemur sér ekki saman innbyrðis og hefur þaðan af síður þroska til að ræða við þingið eða minni hlutann hér á þingi, þá er auðvitað erfitt að koma þessu saman. En hvað getur þá Alþingi gert þegar svo er komið að ramminn er farinn, sem venjulega er okkar haldreipi hér um störfin, 10. gr. þingskapanna skiptir þessu upp í haustþing, vetrarþing og vorþing frá dymbilviku til loka maímánaðar? Ramminn kveður á um sumarhlé frá 1. júlí til 10. ágúst, tilgreinir hvernig starfsáætlun er uppbyggð þannig að menn viti hvaða daga eru þingdagar, nefndadagar o.s.frv. Ef það er allt komið í vaskinn, hvað getur Alþingi gert? Þá held ég að menn verði að setjast niður og semja eitthvert plan B. Nú er nokkuð síðan við höfum fundað í forsætisnefnd. Ég fer eiginlega fram á það að við fundum í forsætisnefnd og ræðum þar til dæmis þann möguleika að setja núna niður bráðabirgðaáætlun til næstu tveggja til þriggja vikna og ríkisstjórninni verði síðan tilkynnt um það (Forseti hringir.) hvernig það þinghald verði ef (Forseti hringir.) hún er ófær um að reyna að leysa málin á eigin forsendum.