144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[16:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að listnám eigi að vera jafnfætis öðrum námsgreinum þegar kemur inn í framhaldsskóla. Ég tel að það samfélag sem við eigum að stefna inn í eigi að bjóða ungu fólki upp á slíka valkosti.

Það sem er merkilegast við þetta frumvarp er hins vegar að í því birtist framhald af mynstri sem maður hefur tekið eftir í stjórnunarstíl hæstv. menntamálaráðherra. Hann virðist vera farinn að stjórna í gegnum tilskipanir sem hann síðan birtir í gegnum fjárlagatillögur. Við sjáum það gerast í þessu þar sem hæstv. menntamálaráðherra virðist vera að gjörbylta, að minnsta kosti breyta, í aðalatriðum skipan tónlistarnáms í landinu miðað við fréttir. Við sáum það að í gegnum fjárlög tók hann upp stýringu á aðgengi að framhaldsskólanum, þ.e. skar út þá sem voru 25 ára og eldri. Það kom aldrei fram til umræðu í þinginu öðruvísi en í gegnum fjárlög. Það má jafnvel segja að hann hafi stigið skref að því að beita fjárlögum og tilskipunum í gegnum þau til að fella litlu framhaldsskólana inn í stærri.

Í síðasta lagi rifja ég það upp að hæstv. menntamálaráðherra, ja, ætlaði hann ekki hér á dögunum að taka Iðnskólann í Hafnarfirði og þeyta honum inn í Tækniskólann án þess að spyrja kóng eða prest og gera það bara í gegnum fjárlög? Mig minnir það. Ég er á móti þessum stjórnunarstíl. En hæstv. menntamálaráðherra virðist forðast þingið, hann virðist ekki leggja í það að koma með umdeildar tillögur sínar hingað til umræðu í Alþingi. Þess í stað kýs hann þá leið að bíða með þær, eins og í þessu tilviki, þar til þingið stendur upp og heldur í sumarfrí, þá kemur hann með það. Þetta eru ekki þau vinnubrögð sem ég vil taka þátt í og hæstv. ráðherra sem er kjarkmaður á ekki að (Forseti hringir.) temja sér slíka framkomu gagnvart þinginu.