144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef mjög margt við fundarstjórn forseta að athuga þessa dagana, þó ekki þess forseta sem nú situr á forsetastóli heldur fundarstjórn forseta þingsins, Einars K. Guðfinnssonar, vegna þess að það er algjörlega augljóst fyrir mér að hann ræður ekki við verkefni sitt þegar við erum komin hér þrjár vikur fram yfir starfsáætlun og það er ekkert að frétta af nýrri starfsáætlun eða samningum um þinglok. Ég veit ekki hvað ég þarf oft að koma upp í þennan stól til að biðja um það. Þarf ég að fara á hnén? Hvað þarf ég að gera til þess að fá það fram að menn komi einhverju skikki á þingstörfin, setji upp starfsáætlun fyrir sumarþing og hætti þeirri vitleysu að reyna að halda því fram að hér séu menn að reyna að semja þegar ljóst er að það hefur enginn talað við neinn í sex, sjö daga? Það segir bara allt sem segja þarf. Ég vona að forseti þingsins, Einar K. Guðfinnsson, fari að koma til okkar og færa okkur þær fréttir að nú sé hafin vinna við gerð nýrrar starfsáætlunar, og leggi hana fram sem allra fyrst.

Virðulegi forseti. Ég vil fá svör við þessum spurningum sem allra fyrst, vegna þess að það gengur ekki að láta mann koma hérna upp (Forseti hringir.) aftur og aftur eins og bilaða plötu til þess að spyrja um það sama. Menn þurfa bara að leggja fram starfsáætlun.