144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir það, ég hef ekkert út á fundarstjórn sitjandi forseta að athuga, en það hef ég aftur á móti við fundarstjórn þess sem fer fyrir þinginu, Einars K. Guðfinnssonar. Þegar maður kemur úr skólakerfinu þekkir maður að þar er sett upp starfsáætlun fyrir nemendur og starfsfólk og kennara, áætlun sem fólk gengur út frá að það geti unnið eftir og við það miða flestir starf sitt, hvort sem það eru nemendur eða kennarar. Hér er málum öðruvísi farið. Þetta snýst ekki um það hvort þingmenn nenni að vinna eða ekki, það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því. Þetta snýst um það að vita hvenær fundir eiga að vera, hversu lengi þeir eiga að standa og svo framvegis. Þetta þýðir ekki að stjórnarandstaðan sé að tefja mál eða annað slíkt heldur kemur ríkisstjórnin seint fram með mál sem hún vill fá afgreidd án mikillar umræðu. Ég hef að gamni mínu verið að lesa aðeins ræður frá 141. þingi um ávirðingar þáverandi stjórnarandstöðu gagnvart sitjandi ríkisstjórn þess tíma. Þær ávirðingar voru nú hreint ekki alltaf fallegar og var það meðal annars undir liðnum fundarstjórn (Forseti hringir.) forseta sem stjórnarandstöðunni þá þótti eðlilegt að kvarta yfir stjórninni, alveg eins og við gerum nú.