144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er kannski ekki mikið að vöxtum en aftur á móti snýr það að mjög mikilvægu máli og umtalsverðum vanda sem við stöndum frammi fyrir varðandi tónlistarnám í landinu. Með þessu frumvarpi er verið að reyna að mæta bráðavanda eða vanda sem upp er kominn og hefur verið að myndast hér að undanförnu, sem snýr að rekstrarstöðu fjölmargra tónlistarskóla. Hér var spurt, virðulegi forseti, hvernig stæði á því að nefnd flytti málið. Það er auðvitað alsiða hér að slíkt sé gert, sérstaklega þegar gera má ráð fyrir því að það sé góð pólitísk samstaða um málið, og þetta er ein af þeim leiðum sem eru opnar í þinginu til að koma málum fram. Það er nefndin sem flytur málið sem endurspeglar að málið er þess eðlis að það átti að vera hægt að ná góðri samstöðu um það.

Hvað varðar þetta mál almennt, stöðuna í tónlistarskólamálunum, þá stöndum við frammi fyrir því að það er svo og hefur verið svo frá árinu 1989, ef ég man rétt, að í samningum um verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga er lagt upp með það að tónlistarkennsla eða kennsla í tónlist á grunn-, mið- og framhaldsstigi sé í höndum sveitarfélaganna. Það fyrirkomulag á sér sínar skýringar. Þannig hefur þetta verið. Það fór svo að bera á því sjónarmiði í kringum 2003/2004, sérstaklega í Reykjavík, að nauðsynlegt væri fyrir sveitarfélögin, t.d. Reykjavík, að geta markað námið þannig að það stæði einungis þeim til boða sem hefðu heimilisfesti í viðkomandi sveitarfélagi. Fyrir því finnst mér vera nokkur sanngirnisrök. Það má auðvitað halda því fram að það sé óeðlilegt að sveitarfélag þjónusti með þessum hætti þá sem ekki borga útsvar í viðkomandi sveitarfélagi. Það eru í það minnsta alveg fullgild rök fyrir þessari afstöðu. Með öðrum orðum hefði það þýtt, ef það hefði gengið fram að fullu, að nemendur sem hefðu viljað sækja skóla til dæmis í Reykjavík, við skulum segja Tónlistarskólann í Reykjavík eða aðra skóla, sem ekki hefðu átt heimilisfesti í Reykjavík hefðu raunverulega átt mjög erfitt með það, það hefði jafnvel verið ómögulegt. Á því ástandi stóð í nokkurn tíma eða þar til árið 2011 að þáverandi ríkisstjórn ákvað að setja nokkra fjármuni inn í þetta kerfi til að liðka þannig fyrir að hægt væri að rjúfa slíkt vistarband, eins var tilgangur þess samkomulags að styðja almennt við þetta skólastig, þótt velta megi fyrir sér hvort það hefði ekki betur verið gert í gegnum verkaskiptasamninginn eða tekjuskiptin á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er svo önnur umræða. En tilgangurinn var meðal annars að setja fjármuni inn í jöfnunarsjóðinn þannig að það væri möguleiki fyrir nemendur að fara þarna á milli.

Því miður hefur framkvæmd þess samkomulags verið misjöfn eftir sveitarfélögum. Það eru sveitarfélög sem hafa nálgast þetta eins og hugsað var, að þetta væru viðaukafjármunir, þetta væru fjármunir sem voru ætlaðir til þess að bæta við í tónlistarnámið, meðan önnur sveitarfélög hafa túlkað það sem svo, þar á meðal Reykjavík, stærsta sveitarfélagið, að með samkomulaginu hafi ríkisvaldið tekið að sér, einhverra hluta vegna, að fjármagna allt framhaldsstigið í hljóðfæraleik, kennslu í hljóðfæraleik, og mið- og framhaldsstigið í söng. Það var auðvitað aldrei ætlun ríkisins og hefur margoft komið fram hjá fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, núverandi hv. alþingismanni Katrínu Jakobsdóttur. Ég hef verið algjörlega sammála þeim skilningi og tel að það sé mjög undarlegt að nálgast þetta samkomulag á þann hátt sem til dæmis Reykjavíkurborg hefur gert.

Það breytir ekki því að þetta er sú afstaða sem er uppi í Reykjavíkurborg. Niðurstaðan er auðvitað sú, sem hefur myndast hér að undanförnu, að rekstur fjölmargra tónlistarskóla á Íslandi er í mikilli óvissu og alveg augljóst að við getum ekki haldið áfram að hafa þetta kerfi með þeim hætti sem nú er.

Þess vegna, virðulegi forseti, er nú að störfum nefnd sem í eiga sæti fulltrúar, einn frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, tveir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn frá Reykjavíkurborg og einn frá fjármálaráðuneytinu. Sá vinnuhópur er að störfum til að skoða hvaða möguleika við höfum til að gera kerfisbreytingu, ekki bara það að setja meira fjármagn til þessa heldur gera kerfisbreytingu þannig að alveg skýrt sé hvað það er sem ríkisvaldið tekur að sér að gera, hvað það er sem sveitarfélögin eru að gera. Vandinn við samkomulagið sem var gert árið 2011, og sennilega var það gert undir heilmikilli tímapressu eins og oft vill verða, er að þar voru settir fjármunir til þessa en kannski hefðum við þurft að horfa betur til þess nákvæmlega hvernig átti að nýta þá, það hefði sennilega þurft að skrifa það meira út úr því að hægt var að skilja samkomulagið á þann hátt sem Reykjavíkurborg gerði.

Allir hlutir verða ekki séðir fyrir. Í það minnsta vitum við hver staðan er núna. Það er þess vegna sem fyrst þarf í þeirri vinnu sem við erum í núna að skilgreina þessa hluti. Ég ætla að nefna nokkur dæmi sem þarf að horfa til.

Í áliti umboðsmanns hér fyrir nokkrum árum síðan kom fram sú skoðun, sem ég tel að sé skynsamleg, að þar sem um er að ræða einingabært nám á framhaldsstigi í tónlist sem nýtist síðan viðkomandi nemanda inn í þann framhaldsskóla sem nemandi stundar nám við til stúdentsprófs sé eðlilegt að ríkið komi að og greiði þann kostnað sem þar er um að ræða. Það er ein nálgun á þessu. Önnur er að líta svo á að allt það nám sem nýtist til stúdentsprófs eða á framhaldsskólastiginu eigi ríkið þá einhvern veginn með formlegum hætti að greiða fyrir. En það er ekki aðeins slíkt nám, þ.e. það sem fer fram í tónlistarskólanum, sem er viðurkennt inn í framhaldsskólakerfið. Það eru fjölmargir aðrir sem stunda nám í tónlistarskólum sem ekki stunda nám í framhaldsskólum. Þá er einmitt spurningin: Eigum við að líta til þess að þegar kemur að þeim sem stunda slíkt nám, á þeim forsendum, sé það eitthvað sem sveitarfélögin eigi að sjá um? Þannig er það jú í dag, af því að það er verkefni sveitarfélaganna að reka þetta nám. Eigum við að reyna að byggja kerfið þannig upp að það sé alveg skýrt að þegar kemur að þeim sem eru í einingabæru námi, ef má nota svoleiðis hugtak, sé það ríkisins að borga og fyrir þá sem eru það ekki borgi sveitarfélögin. Það eru fjölmörg álitaefni sem rísa upp ef menn ætla að nálgast þetta svona. Það er ekki auðvelt að búa til slíkt kerfi. Þótt það sé frekar snúið þurfum við samt að leysa það og það er meðal annars verkefni þessa hóps.

Síðan þegar menn eru búnir að átta sig á þessu kemur að spurningunni um fjármagnið, hversu mikið fjármagn þarf að setja til þessa málaflokks svo að við fullnægjum þeim skyldum sem á okkur hvíla, þ.e. bæði ríkið og sveitarfélögin?

Hvað varðar síðan þá umræðu, sem ég verð að segja að hefur verið undarleg umræða að fylgjast með, að það sé einhvern veginn búið að taka ákvörðun um að það eigi aðeins að vera einn framhaldsskóli eða einn skóli á framhaldsstigi í tónlist þá er auðvitað alveg fráleitt að búið sé að taka slíka ákvörðun. Þessi nefnd er að störfum núna. Hún hefur náð að hittast tvisvar sinnum og á fund aftur eftir nokkra daga. Enn er verið að horfa almennt á fyrirkomulagið, það er töluvert í það að menn geti farið að vinna með fjármagnið. En það hefur aldrei verið eitthvert upplegg að það eigi einungis að vera einn skóli á framhaldsstigi og hann eigi að vera í Reykjavík, þvert á móti. Það sem skoðað hefur verið og verið er að velta fyrir sér er hvort fara eigi í það módel að það sé í það minnsta einn skóli, sem væri þá vissulega í Reykjavík, sem væri opinn nemendum hvaðan sem er af landinu. Það sem meira er, ef nemandi gæti stundað nám við þann skóla en vildi vera áfram í heimabyggð sinni þar sem boðið er upp á framhaldsnám í tónlist gæti viðkomandi nemandi áfram verið í heimabyggð sinni en verið í sambandi við slíkan skóla.

Það sem við þurfum nefnilega að horfa alveg sérstaklega til við lausn þessa máls er að við þurfum aðeins að velta fyrir okkur því námi og þeim námsleiðum sem við erum að bjóða því fólki upp á sem hyggst leggja tónlist fyrir sig sem atvinnu, því að það er stór munur á því hvaða námsúrræði við bjóðum þeim sem vilja fara í nám í tónlist til þess að auðga líf sitt og geta spilað á hljóðfæri og þeim sem ætla að leggja tónlist fyrir sig sem atvinnu. Námsferlarnir hjá þeim sem ætla sér í atvinnumennsku í tónlist og hjá þeim sem eru að fara í hefðbundið nám sem leiðir síðan til háskólanáms, hefðbundins bóklegs náms eða verknáms, eru um margt ólíkir. Þessir nemendur eru gjarnan mun fyrr á ferðinni.

Það sem þarf þá að vera tryggt, og ég tel að við eigum að skoða það þegar við erum að skoða þetta fyrirkomulag, er að við séum með námsleiðir fyrir þá nemendur sem eru eins öflugir og hægt er. Það skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli, vegna þess að eftir því sem okkur tekst betur til við að mennta þá sem síðan leggja þetta fyrir sig því öflugra tónlistarlíf fáum við.

Það dregur ekki úr mikilvægi þess að mennta þá sem hafa áhuga á tónlist og verða síðan hlustendur framtíðarinnar. Þess vegna er á engan hátt verið að leggja upp með að það verði einungis einn skóli og það verði eini skólinn sem veitir menntun á framhaldsstigi í hljóðfæraleik eða mið- og framhaldsstigi í söng, þvert á móti. Það er ekki verið að horfa til þess að það verði neitt hróflað við hinu fyrirkomulaginu heldur jafnvel til þess að styrkja það, þannig að þegar um er að ræða afburðanemendur geti þeir áfram verið í heimabyggð sinni en í tengslum við slíkan skóla. Ég vil ítreka þetta, virðulegi forseti.

Þetta er allt saman á teikniborðinu. Við erum að stíga hér fyrstu skrefin. Við erum enn að fara yfir það hvernig við eigum að skilgreina aðkomu ríkisins og hvernig við eigum að skilgreina aðkomu sveitarfélaganna. Það þarf að gera á nákvæmari hátt en gert var með samkomulaginu árið 2011, enda gerðu menn sér alveg grein fyrir því þegar það samkomulag var gert að það var til þess ætlast að lagt yrði fram frumvarp á þinginu til þess að skerpa á því. Það er það sem við erum að gera núna. Ég vonast til þess að þessi vinna verði öll komin þannig að við getum séð lagafrumvarp koma inn í þingið strax næsta haust.

Hvað varðar svona skóla, þ.e. þennan skóla sem ég var að lýsa áðan þar sem við værum þá að horfa á þann hóp sem sannarlega þarf á því að halda að geta fært sig á milli sveitarfélaga vegna þess að það fólk ætlar sér að leggja fyrir sig tónlist sem aðalfag, vil ég samt sem áður ítreka að að sjálfsögðu er það áfram þannig að nemandi sem er í sínu byggðarlagi og ætlar sér að verða atvinnumaður í tónlist getur vel litið svo á að sá skóli sem þar er sé nægilega góður ef viðkomandi nemandi vill klára allt sitt nám þar. Að sjálfsögðu er það áfram opið. Svona skóli eins og ég er að lýsa og ræða hér þyrfti auðvitað alltaf að vera þannig að hann væri rekinn áfram á inntökuprófum. Það væri horft til þess að inn í slíka skóla væru þeir að fara sem ætluðu sér að leggja tónlist fyrir sig sem ævistarf. Það að menn komist inn í slíka skóla er auðvitað engin trygging fyrir því að þeir verði atvinnumenn, en þessi námsleið þarf að vera til.

Ég ítreka þetta: Þeir sem eru í skólum úti á landi, eða ekki í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu, eða annars staðar á landsbyggðinni, að sjálfsögðu geta þeir áfram stundað nám í heimabyggð sinni, en það mundi styrkja það nám ef hægt væri að hafa einhvers konar samvinnu á milli slíks skóla og skólanna heima í héraði.

Virðulegi forseti. Ég tel að mikilvægt sé að þetta frumvarp sem hér um ræðir verði að lögum sem fyrst, en ég vildi að gefnu tilefni ræða aðeins þá stöðu sem uppi er í þeirri vinnu sem nú stendur yfir varðandi framhaldsnámið í hljóðfæraleik og mið- og framhaldsstigið í söng. Ég ítreka að þetta er spurning um það hvernig við skilgreinum verkefni ríkisvaldsins á þessu sviði annars vegar og verkefni sveitarfélaganna hins vegar. Frá árinu 1989 hefur verið litið svo á í verkaskiptasamkomulaginu að þetta væri alfarið á höndum sveitarfélaganna.

Samningurinn árið 2011 var eiginlega bara um það, virðulegi forseti, að bæta við fjármunum, bæta við fjármunum sem áttu að vera til viðbótar við tónlistarnám í landinu. En það var tekin sú ákvörðun í Reykjavík að draga framlag Reykjavíkurborgar af borðinu og láta þetta eitt standa eftir. Ég harma það mjög og hef lýst þeirri skoðun minni áður á opinberum vettvangi og ég veit að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, hefur verið á sömu skoðun hvað varðar innihald þessa samkomulags.

Þess vegna hvílir mjög á okkur núna að skýra þetta alveg nákvæmlega. Það kann líka að vera að menn þurfi að horfa á tekjuskiptinguna á milli ríkis og sveitarfélaga í framhaldinu og það kann að vera, virðulegi forseti, að það þurfi líka að horfa til þess hvernig skiptingin er á milli ríkis og sveitarfélaga í verkaskiptasamkomulaginu sem fyrir liggur. Aðalatriðið er að þessir hlutir þurfa að vera á hreinu.